Víðir missti Kormák/Hvöt upp fyrir sig
Toppbaráttan í 3. deild karla í knattspyrnu er hörð, Reynismenn sitja á toppnum en Víðismönnum mistókst að halda öðru sætinu þegar þeir sóttu Kormák/Hvöt heim á Blönduós í gær. Á sama tíma gerðu Þróttarar jafntefli við næstefsta lið 2. deildar karla og sitja í fimmta sæti.
KFA - Þróttur (1:1)
Þróttur hélt austur á Reyðarfjörð í gær þar sem þeir mættu KFA í Fjarðabyggðahöllinni.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Kári Sigfússon Þrótti yfir (71') en heimamenn jöfnuðu rúmum tíu mínútum síðar (82').
Kári er næstmarkahæstur í 2. deild með átta mörk en ÍR-ingurinn Bragi Karl Bjarkason er markahæstur með ellefu mörk.
Kormákur/Hvöt - Víðir (3:2)
Helgi Þór Jónsson skoraði á 7. mínútu og kom Víði í forystu en heimamenn jöfnuðu skömmu síðar (14').
Staðan var jöfn þegar seinni hálfleikur fór af stað en Kormákur/Hvöt náði fljótt forystu (49'). Paolo Gratton jafnaði fyrir Víði (61') en norðanmenn komust yfir á ný á 73. mínútu.
Þrátt fyrir þrefalda skiptingu hjá Víði skömmu síðar voru fleiri mörk ekki skoruð og liðin höfðu vistaskipti í öðru og þriðja sæti deildarinnar.
Reynir er komið með fimm stiga forystu í deildinni með 28 stig en Kormákur/Hvöt hefur 23 stig og Víðismenn eru með 22 stig þegar tólf umferðir hafa verið leiknar.