Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Víðir leikur í 2. deild að ári
Þriðjudagur 28. ágúst 2007 kl. 21:49

Víðir leikur í 2. deild að ári

Víðir Garði hafði 2-1 sigur á Tindastól í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum 3. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Víðismenn unnu því einvígið 6-3 þar sem leikurinn á Sauðárkróki fór 4-2 Víði í vil. Steinar Ingimundarson, þjálfari Víðis, sagði í leikslok að nú væri ný gullöld hjá Víði gengin í garð.

Víðir hefur síðustu tvö leiktímabil verið í 3. deild eftir að hafa fallið úr 2. deild árið 2004. Þegar Magnús Þórisson, dómari, flautaði til leiksloka á Garðsvelli í kvöld brutust út mikil fagnaðarlæti og fékk Steinar Ingimundarson vænlega tolleringu í lokin.

 „Við erum hvergi bangnir við 2. deild. Við ætluðum okkur fyrir það fyrsta að fara upp í 2. deild og svo metum við bara stöðuna núna. Þetta verður jöfn rimma gegn Hamri í næstu umferð en varðandi leikinn í kvöld þá er það erfitt að vera liðið sem er með betri stöðu fyrir seinni leikinn en ég vissi það allan tímann að við myndum taka þetta. Strákarnir í liðinu eru ungir en hafa engu að síður yfir miklum karakter að ráða og ég er alveg sannfærður um það að önnur gullöld sé í uppsiglingu í Garðinum,“ sagði Steinar kátur í leikslok.

Það er orðið ljóst að Víðir og Hamar mætast í undanúrslitum 3. deildar og fer fyrsta viðureign liðanna fram á Garðsvelli þann 1. september næstkomandi.

Í kvöld komust gestirnir að Norðan í 0-1 í fyrri hálfleik með skallamarki frá Bjarka Árnasyni en Víðir jafnaði metin í síðari hálfleik með góðu marki frá Haraldi Axel Einarssyni. Það var svo Atli Rúnar Hólmbergsson sem gerði sigurmark Víðis með skoti úr teignum og gulltryggði sæti Víðis í 2. deildinni.

VF-mynd/ [email protected] – Víðismenn fagna sigurmarki Atla Rúnars

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024