Víðir getur styrkt stöðu sína á toppnum
Fjöldi leikja fer fram í neðri deildunum í knattspyrnu í kvöld og verða þrjú Suðurnesjalið í eldlínunni. Í 1. deild kvenna tekur GRV á móti HK/Víking á Grindavíkurvelli og hefst leikurinn kl. 20:00.
GRV hafði góðan 2-0 sigur á Haukum í sínum fyrsta leik en HK/Víkingur hafði 2-0 sigur á Leikni í sínum fyrsta leik og því hafa bæði lið 3 stig. Með sigri í kvöld getur annað hvort liðið blandað sér í toppbaráttuna en Þróttur Reykjavík og FH sitja á toppnum með 6 stig.
Í 3. deild karla leika GG og Víðir í B-riðli. GG mætir Afríku á gervigrasvellinum í Laugardal en Víðismenn taka á móti KV á Garðsvelli. Báðir leikir hefjast kl. 20:00. Víðistmenn eru á toppi B-riðils 3. deildar með fullt hús stiga eftir tvo leiki og geta styrkt stöðu sína á toppnum með sigri í kvöld. GG er í 4. sæti með 4 stig eftir tvo leiki, einn sigur og jafntefli.
VF-mynd/ Frá leik Víðis og KFS á síðustu leiktíð.