Víðir burstaði BÍ/Bolungarvík
Víðismenn áttu ekki í teljandi vandræðum er þeir mættu BÍ/Bolungarvík í Lengjubikarnum í knattspyrnu í gær. Leikurinn fór fram í Reykjaneshöll þar sem Garðmenn skoruðu fjórum sinnum og skiptu mörkunum bróðurlega á milli sín.
Knútur Rúnar Jónsson kom Víði í 1-0 á 10. mínútu og Slavisa Mitic bætti öðru markinu við aðeins sex mínútum síðar og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Á 53. mínútu skoraði Björn Bergmann Vilhjálmsson þriðja mark Víðis og fjórða og síðasta markið gerði Haraldur Axel Einarsson á 88. mínútu og öruggur sigur Víðismanna í höfn.
Víðir er nú á toppi riðils 2 í B-deild Lengjubikarsins eftir sigra í tveimur fyrstu leikjunum sínum en markatala liðsins er 8-2.
VF-Mynd/ [email protected]- Knútur Rúnar Jónsson fyrirliði Víðis var á skotskónum í gær.