Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Video: Tvö mörk hjá Sverri
Sunnudagur 21. maí 2006 kl. 17:32

Video: Tvö mörk hjá Sverri

Sverrir Þór Sverrisson gerði bæði mörk Njarðvíkinga í 2-1 sigri gegn KS/Leiftri á Njarðvíkurvelli í dag. Njarðvíkingar hefðu hæglega getað bætt við fleiri mörkum en fóru oft illa að ráði sínu við mark andstæðinganna.

Hvasst var á Njarðvíkurvelli í dag og hófu heimamenn leik með vindi og áttu ágætisfæri á upphafsmínútum leiksins. Gestirnir vörðust ágætlega en það var ekki fyrr en á 40. mínútu að Njarðvíkingum tókst að koma boltanum í netið. Brotið var á leikmanni Njarðvíkur inni í vítateig og dæmd vítaspyrna. Spyrnuna tók Sverrir Þór og skoraði hann nokkuð örugglega.

Staðan í hálfleik var 1-0 Njarðvík í vil og þá var komið að gestunum að sækja með vindi.

KS/Leiftur voru sprækir í upphafi seinni hálfleiks og áttu loks nokkur færi eftir dapran fyrri hálfleik sóknarlega. Á 56. mínútu dæmir Gylfi Orrason, dómari leiksins, vítaspyrnu á Albert Sævarsson og gefur honum gult spjald að auki eftir að Albert og leikmaður KS/Leifturs höfðu lent í samstuði. Vildi Gylfi meina að Albert hefði gengið of harkalega fram en markvörðurinn mótmælti dómnum hástöfum.

Ragnar Hauksson setti boltann í vinstra hornið, neðarlega, og staðan 1-1 en Albert valdi rétt horn í markinu og var ekki fjarri því að ná til knattarins enda kattliðugur markvörður þar á ferð.

Sverrir Þór kláraði svo leikinn fyrir Njarðvíkinga er Guðni Erlendsson sendi boltann fyrir markið og beint á Sverri sem kom Njarðvíkingum í 2-1 á 71. mínútu leiksins. Þar við sat og Njarðvíkingar réðu lögum og lofum á vellinum það sem eftir lifði leiks.

Aron Smárason, sem kom inn á sem varamaður í Njarðvíkurliðinu, hefði hæglega getað komið Njarðvíkingum í 3-1 undir lok leiksins er hann braust í gegn eftir stungusendingu og skaut fram hjá markinu eftir skógarferð markvarðar KS/Leifturs. Það kom ekki að sök og Njarðvíkingar fögnuðu sigri í fyrsta heimaleiknum.

Staðan í deildinni

Video: Sjá viðtal við Snorra Má Jónsson, fyrirliða Njarðvíkinga.

Sjá myndasafn frá leiknum

[email protected]

 


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024