Video: Skoðaði íslenska leikmenn
Bandaríski knattspyrnuþjálfarinn Jason Kilby var staddur hér á landi í nokkra dag til þess að koma á fót tengslum við íslenska knattspyrnuþjálfara. Kilby er þjálfari í Wesleyan miðskólanum í Norður Karólínu í Bandaríkjunum en Wesleyan er á meðal 20 bestu miðskóla Bandaríkjanna í knattspyrnu.
Kilby dvaldi hjá Frey Sverrissyni, landsliðsþjálfara og yngri flokka þjálfara í Njarðvík, og sóttu þeir saman leiki í deildarbikarnum og að sögn Kilby hafa nokkrir ungir knattspyrnumenn áhuga á því að kynna sér Wesleyan betur en skólinn hefur á fjölþjóðlegu knattspyrnuliði að skipa.
Deildarbikarinn í knattspyrnu er nú í fullum gangi en Kilby var ánægður með þá leikmenn sem hann sá til í veru sinni hérlendis og taldi að þónokkrir leikmenn hér á Íslandi gætu sómað sér ágætlega í atvinnumannadeildinni í Bandaríkjunum. Besta leiðin til þess að komast í þær deildir sé að spila fyrir miðskóla í Bandaríkjunum.
„Íslendingar hafa verið að gera frábæra hluti í knattspyrnunni í bandarísku skólnum og þ.a.l. hefur áhugi bandarísku þjálfaranna aukist á þeim,“ sagði
Freyr Sverrisson í samtali við Víkurfréttir. „Mér finnst það frábært að ungir knattspyrnumenn geti farið þessa leið, komast í gott nám í góðum skóla með sterkt knattspyrnulið. Ég mæli með því að ungir knattspyrnumenn kanni þennan möguleika,“ sagði Freyr.
Er þá von á fleiri bandarískum knattspyrnuþjálfurum til landsins að fylgjast með ungum og efnilegum leikmönnum? „Á meðan íslensku strákarnir halda áfram að standa sig vel úti þá er aldrei að vita,“ sagði Freyr að lokum.
Viðtal við Jason Kilby á ensku (enginn texti)
Vefsíða Norh Carolina Wesleyan: www.ncwc.edu
VF-mynd/ JBÓ, [email protected]