Video: Reynsluboltinn Auðunn Helgason til Grindvíkur
„Það er mikill metnaður hér í Grindavík og ég hlakka til þessa nýja verkefnis,“ sagði knattspyrnumaðurinn Auðunn Helgason sem gekk nú síðdegis til liðs við Pepsi deildarlið Grindavíkur.
Auðunn sagði að hlutirnir hefðu gengið hratt fyrir sig. Formaður knattspyrnudeildar UMFG hefði haft samband við sig fyrir tveimur dögum og samningar hefðu verið kláraðir á þeim tíma. „Ég var búinn að ræða við Fram og það hafði ekki borið árangur þannig að ég er mjög sáttur að enda ferilinn í gula búningnum hér í Grindavík,“ sagði þessi 35 ára varnarmaður sem lék nú síðast með Fram undanfarin tvö tímabil og var fyrirliði liðsins. Auðunn á langan og farsælan feril að baki með knattspyrnumaður, er FH-ingur í grunninn og lék með meistaraliðinu í mörg ár. Hann hefur einnig leikið með Leiftri í Ólafsfirði og sem atvinnumaður í Noregi, Belgíu, Sviss og Svíþjóð. Þá á hann 35 landsleiki að baki.
Þorsteinn Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG sagðist mjög ánægður með þennan nýja liðsstyrk. Liðið væri ungt og því væri mikill fengur að fá leiðtoga eins og Auðun til Grindavíkur.
Auðunn skrifar undir samninginn í Grindavík í dag. Þorsteinn Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildarinnar er honum við hlið. VF-myndir/pket.