Video: Færðust nær toppsætinu
Íslandsmeistarar Keflavíkur náðu sér niðri á Grindvíkingum í gær er þeir höfðu betur í viðureign liðanna í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Lokatölur leiksins voru 109 – 84 Keflavík í vil sem sigldu jafnt og þétt fram úr Bikarmeisturunum í síðari hálfleik. Með sigrinum söxuðu Keflvíkingar á forskot granna sinna í Njarðvík sem töpuðu gegn Snæfell í gær.
Þrátt fyrir fjarveru Páls Axels, Helga Jónasar og Guðlaugs þá var engan bilbug að finna á Grindvíkingum í upphafi leiks og var staðan 26 – 26 að loknum 1. leikhluta. Þorleifur Ólafsson steig þá upp í fjarveru félaga sinna og átti skínandi góðan leik í gær. Óhætt er að taka fram að varnir liðanna voru sem gatasigti í fyrri hálfleik og var nokkuð um það að leikmenn væru að skora auðveldar körfur.
Í 2. leikhluta náðu Keflvíkingar að vinna upp nokkurra stiga forystu á Grindavík og þegar fáeinar sekúndur voru til hálfleiks fékk Magnús Gunnarsson boltann. Staðan var þá 52 – 45 Keflavík í vil en Magnús náði að munda byssuna í tæka tíð og skotið reið af og rataði beina leið ofan í. Þar með jók Magnús muninn í 10 stig fyrir leikhlé 55 – 45, glæsileg karfa beint yfir Pál Kristinsson, 2ja metra mann.
Vængbrotið lið Grindavíkur mætti vart til leiks í síðari hálfleik en staðan að loknum 3. leikhluta var 82 – 65 og sagði mörgum svo hugur að Grindavík ætti ekki eftir að saxa á þetta forskot. Það stóð heima og er lokasekúndur leiksins hlupu hjá sungu áhangendur Grindavíkur: „við unnum bikarinn na na na na na“ um leið og þeir urðu að játa sig sigraða.
A.J. Moye gerði 27 stig fyrir Keflavík og tók 13 fráköst, Arnar Freyr Jónsson kom honum næstur með 13 stig og 7 stoðsendingar. Þorleifur Ólafsson var allt í öllu hjá Grindavík og gerði hann 27 stig ásamt því að taka 8 fráköst. Jeremiah Johnson gerði 19 stig og gaf 8 stoðsendingar.
Tölfræði leiksins
Smellið hér: Myndbrot úr leiknum
Smellið hér: Viðtöl við Þorleif Ólafsson og Sigurð Ingimundarson
VF – myndir/ [email protected]