Video: Algjörir yfirburðir
Njarðvíkingar áttu ekki í teljandi vandræðum með botnlið Hattar í Iceland Express deildinni en leiknum lauk með 43 stiga sigri Njarðvíkinga 120 – 77. Jeb Ivey var stigahæstur með 26 stig í liði Njarðvíkur og kom Jóhann Árni Ólafsson honum næstur með 25 stig.
Njarðvíkingar hófu leikinn af krafti og komust í 20 – 9 í fyrsta leikhluta en honum lauk í stöðunni 33 – 16. Áður en flautað varð til leikhlés áttu Hattarmenn góða rispu og náðu að minnka muninn í 5 stig þegar minnst var. Njarðvíkingar rönkuðu við sér og breyttu stöðunni í 55 – 40 þegar liðin héldu til hálfleiks. Njarðvíkingar léku pressuvörn allan leikinn og náðu Hattarmenn að leysa ágætlega úr henni í upphafi leiks en þegar fram leið urðu gestirnir værukærari og var refsað grimmilega fyrir það.
Úr 15 stiga mun í hálfleik fór munurinn í 30 stig að loknum 3. leikhluta og þá hristu Brenton Birmingham og Friðrik Stefánsson aðeins upp í áhorfendum með góðum troðslum. Fjórði leikhlutinn var síðan formsatrið hjá Njarðvíkingum sem luku leik með 43 stiga sigri, 120 – 77.
Jóhann Árni Ólafsson skilaði góðu dagsverki í gær og braut sér leið í gríð og erg gegnum Hattarvörnina en allir leikmenn Njarðvíkur fengu að spreyta sig í gær og náðu 11 af 12 leikmönnum liðsins að komast á blað.
Stigahæstur hjá Hetti var Milojica Zekovic með 24 stig og 10 fráköst.
Njarðvíkingar eru enn á toppi deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir af Iceland Express deildinni og eiga þeir hörkuleiki eftir. Næst er það Grindavík í Röstinni, svo Fjölnir í Ljónagryfjunni og loks Keflavík í Sláturhúsinu.
Tölfræði leiksins
Smellið hér til að skoða myndbrot úr leiknum
Smellið hér til að skoða viðtal við Einar Árna Jóhannsson
VF-myndir/ Þorgils Jónsson, [email protected]