Við skorum alltaf!
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, annan tveggja yfirþjálfara karlaliðs Keflavíkur í knattspyrnu, er mjög sáttur við stöðu Keflvíkinga í Lengjudeildinni en Keflavík situr á toppnum þegar deildin er hálfnuð og hefur skorað yfir þrjú mörk að meðaltali í leik.
– Síðasti leikur fór ekki alveg eins og best var á kosið [Afturelding - Keflavík 2:2].
„Nei, hann var frekar jafn og bæði liðin fengu færi. Við förum auðvitað í alla leiki til að vinna þá en Afturelding er með gott og mér finnst að þeir ættu að vera ofar á töflunni. Við fórum ekki nógu vel með færin okkar og vorum við bara mínútum frá sigri. Það er það jákvæða sem hægt er að taka út úr leik sem þessum, þar sem við náum ekki að spila okkar besta leik.
Það var svekkjandi að fá svona mark á sig í lokin, manni finnst að við eigum að gera betur í svona föstum leikatriðum. Aukaspyrna af löngu færi, við töpum fyrstu tveimur boltanum og þeir skora. Það er lærdómur í öllum leikjum sem við vinnum ekki – reyndar í öllum leikjum sem maður vinnur líka, við tökum þetta bara með okkur og gerum betur næst.“
– Þið eruð efstir og liðið lítur mjög vel út.
„Já, það er gaman að vera með þetta í okkar höndum. Strákarnir hafa unnið vel í sumar til þess að komast í þessa stöðu, það er sérstaklega gaman að sjá hvað liðið skorar mörg mörk. Við skorum óvenjumörg mörk, 37 mörk í ellefu leikjum, svo við erum að skora nálægt þremur og hálfu marki í leik að meðaltali.“
– Hann hefur aldeilis verið hvalreki fyrir Keflavík þessi ástralski undradrengur [Joey Gibbs].
„Við eyddum ansi löngum tíma í að finna hann, það var engin heppni að hann skildi reka hingað á land – hann býr hinum megin á hnettinum. Við leituðum gríðarlega mikið að góðum framherja, það er mjög erfitt að finna góða framherja. Þannig að afraksturinn komi af því að þetta er hæfileikaríkur leikmaður með gott marka-„record“ á sínum ferli og hefur passað frábærlega inn í það sem við erum að gera. Við vorum að leita að ákveðinni týpu af framherja en í allan vetur lékum við með kantmenn frammi og það gekk vel, við vorum að skapa okkur færi en vantaði einhvern til að reka endahnútinn á sóknirnar okkar. Við erum gríðarlega ánægðir með Joey og að hann hafi viljað framlengja við okkur, það sama á við um Frans. Þetta eru leikmenn sem eru okkur gríðarlega mikilvægir og hluti af kjarnanum sem við viljum byggja í kringum.“
– Ég ræddi einmitt við Joey fyrir skemmstu og líkaði sérstaklega vel hugarfarið hjá honum.
„Joey er einhver allra flottasti karakter sem ég hef kynnst, með gott hugarfar og gefur mikið af sér inn í hópinn. Hann gengur á undan með góðu fordæmi í hverjum einasta leik með því að leggja sig 100% fram og vera hvetjandi og jákvæður. Við erum með ungt lið, Joey er einn af örfáum sem eru eldri og hann miðlar af sinni reynslu til strákanna og þeir bera mikla virðingu fyrir honum. Það er ótrúlega gaman að sjá að hann sé kominn í fjórtán mörk í ellefu leikjum. Ég held að markametið í þessari deild sé 22 mörk og ég held að hann ... Það verður gaman að sjá hvað hann nær að skora mörg.“
Deildin er hálfnuð
– Talandi um það, það er komið undir lok ágúst og deildin er bara hálfnuð. Þetta klárast aldrei.
„Já, það er skrýtið hvað það er mikið eftir þegar það er þetta langt liðið á ágúst. Það verður spilað mjög ört og verður mikið álag á leikmenn.“
– Hvernig leggst næsti leikur í þig? Þá mætið þið Leikni sem er með ykkur í toppbaráttunni og vann ykkur í fyrri leiknum.
„Hann leggst bara vel í mig. Það leggjast allir leikir vel í mig, mig hlakkar alltaf til að spila – sjá liðið spila. Við vitum að Leiknismenn eru með hörkulið og er eina liðið sem hefur unnið okkur. Við vitum að við skorum alltaf í öllum leikjum, kúnstin hefur frekar falist í að ná að verjast betur sem lið. Fá færri mörk á okkur því við skorum alltaf. Leiknismenn hafa verið að misstíga sig í síðustu umferðum og það er mikið í húfi fyrir okkur því ef við vinnum setjum við þá sjö stigum fyrir aftan okkur. Þetta er einn af þessum úrslitaleikjum sem skipta mjög miklu máli.“
– Svo er næsti leikur Suðurnesjaslagur, Grindavík heima.
„Já, það er leikur sem alla hlakkar til að spila. Síðasti leikur var hörkuleikur, 4:4 og allir vildu skora. Það var ótrúlegur leikur og það er mikil tilhlökkun að spila aftur við þá.“
– Þeir hafa verið á uppleið undanfarið.
„Grindvíkingar hafa verið óheppnir í sínum leikjum framan af, hafa verið að tapa niður forskoti en það eru mikil gæði í leikmannahópnum hjá þeim. Þannig að maður vissi svo sem að þeir myndu rífa sig í gang þegar færi að líða á. Það er líka tækifæri í þeim leik til að ýta þeim aftur fyrir, allir þessir leikir eru gríðarlega mikilvægir.“