VF Spjall - Hafsteinn Smári Óskarsson hnefaleikamaður keppir við Dana
Hafsteinn Smári Óskarsson er 17 ára gamall hnefaleikamaður úr hnefaleikafélagi Reykjaness. Síðastliðin tvö ár hefur Hafsteinn verið kosinn hnefaleikamaður ársins í Reykjanesbæ og hnefaleikamaður ársins á landsvísu árið 2009. Hafsteinn er svo sannarlega einn af efnilegustu boxurum Íslands enda margfaldur Íslandsmeistari. Hann er Njarðvíkingur sem er rétt orðinn 17 ára og stundar nám í FS auk þess að æfa box á hverjum degi. Hans helstu áhugamál eru tölvur, vinirnir, skólinn og að sjálfsögðu hnefaleikar. Í framtíðinni langar Hafstein að mennta sig í tölvufræðum og samhliða því ætlar hann að fara eins langt og hann mögulega getur í boxinu. Nú í kvöld berst Hafsteinn á 10 ára afmæli Hnefaleikafélags Reykjaness í léttmillivigt gegn Dana sem Hafsteinn segir töluvert reyndari en hann sjálfur, hann sé einnig eldri, þyngri og stærri en Hafsteinn. Spennandi verður að sjá hvenig Hafsteini tekst til og hvetjum við boxáhugamenn til að fjölmenna í gömlu sundhöllina við Framnesveg í kvöld en húsið opnar klukkan 19:00 og kostar 1.000 krónur inn. Alls verða 11 bardagar um kvöldið þar sem okkar fremsta hnefaleikafólk stígur í hringinn. Við fengum Hafstein til að svara nokkrum léttum spurningum um nokkra af þeim hlutum sem eru í uppáhaldi hjá kappanum.
Bitinn
„Uppáhaldsskyndibitinn minn er kannski einna helst Beikon Olsen en það er svo sem kannski ekki rétti maturinn svona fyrir mót.“
Bókin
„Ég er svo sem ekki mikill bókaormur og les helst ekkert fyrir utan skólabækurnar.“
Tónlistin
„Ég er þessi dæmigerða alæta á tónlist og á mér því ekkert sérstakt uppáhald.“
Þátturinn
„Ég horfi oftast á þætti á netinu eins og Supernatural, Family Guy og Simpsons.“
Kvikmyndin
„Bíómyndin sem ég horfði síðast á er Due Date og var hún mjög góð.
Vefsíðan
„Þær síður sem ég skoða oftast eru ekki margar, Facebook, Youtube og einstaka Torrent síður.“
[email protected]