Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Verður erfitt að kveðja Keflavík
Ísak Óli Ólafsson.
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
sunnudaginn 23. júní 2019 kl. 06:00

Verður erfitt að kveðja Keflavík

-Ísak Óli leikur með Sønderjyske í Danmörku næstu fjögur árin

„Það er skrýtið að fara frá Keflavík en auðvitað var alltaf markmiðið hjá mér að spila erlendis. Keflavík verður samt alltaf mér í hjartastað og það verður erfitt að kveðja,“ segir hinn átján ára gamli Ísak Óli Ólafsson en hann mun á næstunni skrifa undir fjögurra ára samning við danska liði Sønderjyske.

Ísak Óli hefur spilað fótbolta með Keflavík alla sína tíð og er fyrirliði meistaraflokks Keflavíkur sem er nú í öðru sæti Inkasso-deildarinnar. Ísak hefur verið lykilmaður í liði Keflavíkur síðustu ár þrátt fyrir ungan aldur og var nýverið valinn í undir 21 árs landslið Íslands. „Síðasti leikurinn minn með Keflavík verður 23. ágúst. Ég er virkilega spenntur að fara út en það verður krefjandi.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðspurður um frammistöðu Keflavíkurliðsins í sumar segist Ísak nokkuð sáttur. „Við byrjuðum vel en duttum aðeins niður í nokkra leiki en það var mjög gott að vinna á sterkum útivelli í Ólafsvík. Við erum með virkilega ungt lið sem er fullt af heimamönnum sem eru hungraðir þannig við erum á góðum stað.“

Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, segist ánægður með samkomulagið við Sønderjyske og telur það sanngjarnt fyrir alla aðila. „Við erum með öflugt yngri flokka starf sem sést vel á fjölda fyrrverandi Keflvíkinga sem eru virkir í atvinnumennsku og standa sig vel. Við erum mjög ánægð fyrir hönd Ísaks og óskum honum alls hins besta. Hann mun skilja eftir sig stórt skarð í liðinu en ég efast ekki um að við munum ná að fylla það með tíð og tíma. Ísak er uppalinn hjá Keflavík og því stór hluti af Keflavíkurfjölskyldunni.“

Markmið Keflavíkurliðsins restina af sumrinu er, að sögn Ísaks, að mæta með það hugarfar á hvern leik að vinna hann. „Við sjáum svo hvert það fleytir okkur.“