Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Verðum að ná í þrjú stig
Fimmtudagur 22. júní 2006 kl. 11:49

Verðum að ná í þrjú stig

Grindvíkingar hafa gert þrjú jafntefli í röð í Landsbankadeildinni. Á meðan vörnin, sem eitt sinn var helsta mein Grindavíkur, er nú í fantaformi þá bitnar það verulega á sóknarleik liðsins þar sem Jóhann Þórhallsson, framherji Grindvíkinga, er oft einn og yfirgefinn með varnarmönnum andstæðinganna.

Sigurður Jónsson, þjálfari Grindvíkinga, segir að liðið verði hreinlega að fara að næla sér í þrjú stig. „Við fáum lítið fyrir þessi jafntefli, við erum ekki að skapa nægilega mikið af færum en höfum verið að bæta sóknarleikinn hjá okkur síðustu vikur,“ sagði Sigurður og viðurkenndi að það hefði vissulega verið áfall að missa Sinisa Kekic út úr liðinu. „Þá hefur Mounir ekki verið alveg heill en hann hefur verið góður síðustu æfingar og gæti vel verið í liðinu í kvöld,“ sagði Sigurður en Mounir hefur átt við nárameiðsli að stríða að undanförnu.

Grindvíkingar taka á móti KR í kvöld en vesturbæingar verma 3. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan Grindvíkingar eru í 6. sæti með 10 stig. Sigur í kvöld myndi því skjóta Grindavík upp fyrir KR. „Jafntefli á heimavelli er eitthvað sem er ekki inni í okkar markmiðum, styrkleiki KR er Rógvi og Grétar, framherjar liðsins, og við verðum að loka á fyrirgjafirnar hjá KR því Rógvi er sterkur í lofinu,“ sagði Sigurður. „Það er mikill hugur í mönnum og við höfum verið að æfa vel í vikunni og það kemur til með að skila sér í kvöld,“ sagði Sigurður að lokum.

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024