Verðum að afsanna þetta á vellinum
- segir Zoran Ljubicic þjálfari Keflvíkinga
Keflvíkingar máttu sætta sig við 2-1 tap gegn núverandi Íslandsmeisturum FH á mánudag. Marjan Jugovic skoraði mark Keflvíkinga í upphafi síðari hálfleiks en FH-ingar leiddu verðskuldað 2-0 í hálfleik. Keflvíkingar voru til alls líklegir í síðari hálfleik eftir mark þeirra. Bítlabæjarstrákarnir sóttu nokkuð fast undir lokin og hefðu með örlítilli heppni getað jafnað leikinn. Zoran Ljubicic þjálfari Keflvíkinga var á því að hans piltar hafi stjórnað leiknum og átt meira skilið.
„Ég er að sjálfsögðu ósáttur við mörkin sem við fáum á okkur. Við sofnum á verðinum og FH er þannig lið að þeir refsa, það var kannski munurinn á liðunum í leiknum,“ segir Zoran. Hann hrósaði liðinu fyrir baráttu og vilja og að hans mati var Keflavík betri aðilinn á vellinum gegn Íslandsmeisturunum. „Það var nánast eitt lið á vellinum og við stjórnuðum leiknum frá a-ö,“ sagði Zoran en hann var ekki sáttur við mörkin sem Keflvíkingar fengu á sig og auk þess hefði átt að nýta færin betur.
Varðandi spár fjölmiðla vill Zoran sem minnst segja. Zoran segist lítið taka mark á spám fjölmiðla og eina leiðin til þess að afsanna þessar spár sé að að láta verkin tala. „Eina leiðin fyrir leikmenn að láta rödd sína heyrast er inni á fótboltavellinum, ég get öskrað á hliðarlínunni en það gerir víst lítið. Við þurfum hins vegar ekki að hugsa um þetta en virðum engu að síður skoðanir fjölmiðla,“ segir þjálfarinn.
Nánara viðtal við Zoran má lesa í prentútgáfu Víkurfrétta í sem kemur út í dag.
Arnór Ingvi Traustason í baráttunni gegn FH. Mynd J.L. Long fyrir fótbolta.net.