Vel heppnaður kynningarfundur 3N
Fyrsti fræðslufundur 3N, þríþrautadeildar UMFN, var haldinn í gær í kennslusal Fimleikaakademíunnar. Fundurinn tókst með eindæmum vel og greinilegt að mikill áhugi er fyrir þríþraut í Reykjanesbæ. Um 50 manns mættu á fundinn og hafa nú þegar 30 skráð sig í deildina. Það má því segja að deildin fái góðan meðbyr í upphafi. Umfn.is greinir frá í dag.
Á fundinum var starfsemi deildarinnar kynnt og farið yfir skráningar og æfingagjöld, skipulag æfinga o.s.frv. Í framhaldi af því hélt Steinn Jóhannsson, járnkarl, erindi um hvernig bera eigi sig að þegar byrjað er í þríþraut og sýndi myndir frá ýmsum keppnum, þar á meðal Ironman keppni í Barcelona. Einnig fór hann yfir hinar ýmsu græjur sem fylgja íþróttinni og voru til sýnis hjól, föt og annar búnaður. Þá hélt Mummi frá Aquasport stutta kynningu á fyrirtækinu og sýndi nýjustu vörulínuna í sund- og þríþrautarfatnaði frá TYR, þar á meðal sjósundgalla, gleraugu og sundfit, að ógleymdum sjósundgöllum, sem eru jafnan notaðir við sund þríþrautarmanna í sjó og vötnum.
Myndir umfn.is