Vel heppnað mót í Leiru - Heimamenn langt frá sínu besta
Axel Bóasson úr Keili og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR eru Íslandsmeistarar í höggleik árið 2011 en mótið fór fram á Hólmsvelli í Leiru. Axel, sem er 21 árs gamall, lék lokahringinn á 74 höggum eða tveimur höggum yfir pari og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með stæl. Hann fékk örn á 18. holunni og sigraði að lokum með þriggja högga mun. Axel lék samtals á tveimur höggum undir pari í mótinu.
Kristján Þór Einarsson úr GKj varð annar eftir að hafa leikið lokahringinn á 69 höggum. Hringina fjóra lék hann samtals einu höggi yfir pari. Kristján lék best allra í dag og setti verulega pressu á Axel á lokaholunum. Bráðabani varð á milli þeirra Alfreðs Brynjars Kristinssonar úr GKG, Heiðars Davíðs Bragasonar úr GÓ og Ólafs Más Sigurðssonar úr GR um þriðja sætið þar sem Alfreð bar sigur úr býtum.
Í kvennaflokki fagnaði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR öruggum sigri. Hún lék hringina fjóra samtals á átta höggum yfir pari og varð níu höggum á undan Tinnu Jóhannsdóttir úr Keili sem varð önnur. Signý Arnórsdóttir úr Keili varð þriðja.
Suðurnesjamenn voru ekki í toppbaráttu að þessu sinni en Örn Ævar Hjartarsson úr GS hafnaði þó í 10. sæti í karlaflokki. Davíð Jónsson úr GS hafnaði í 19. sæti og klúbbmeistari GS, Guðmundur Rúnar Hallgrímsson varð í 25. sæti.
Í kvennaflokki varð Karen Guðnadóttir úr GS í 14. sæti.
Mótið heppnaðist vel þrátt fyrir að vindurinn hafi verið að stríða kylfingum og áhorfendum seinni hluta móts.
Nánari umfjöllun frá mótinu má nálgast á kylfingur.vf.is