Veit alltaf hvar ræturnar eru
Sverrir Þór er búinn að núllstilla sig og er klár í slaginn
Sverrir Þór Sverrisson tók við þjálfun Keflavíkurliðins í körfubolta af Margréti Sturlaugsdóttur. Sverrir hafði tekið sér frí frá þjálfun en hann átti erfitt með að hafna þessu tækifæri þegar það bauðst. Hann segir að Keflavíkurhjartað hafi tifað þegar haft var við hann samband.
„Einhvern veginn kom upp þessi staða í Keflavík og eftir að þeir höfðu samband þá kviknaði áhuginn en ég var ekkert á leiðinni að fara að þjálfa. Ég lagði skóna á hilluna árið 2010 og hef ekkert verið í Keflavík síðan, það var því spennandi að koma tilbaka. Ég ætlaði að vera í fríi þetta tímabil en fann það bara að ég var tilbúinn,“ segir Sverrir sem hefur komið víða við á löngum ferli í körfunni og fótboltanum.
„Ég er fæddur og uppalinn Keflvíkingur og það hefur aldrei breyst. Maður hefur gefið allt í starfið og ber taugar til þeirra félaga sem ég hef verið hjá og unnið titla með. En maður veit alltaf hvar ræturnar eru.“ Sverrir segist hafa þurft á fríinu að halda, hann hafi verið orðinn ansi lúinn.
Nauðsynlegt að taka sér frí
„Þetta var bara nauðsynlegt fyrir mig,“ segir Sverrir en eftir á að hyggja telur hann að það hafi verið of mikið að þjálfa bæði karla- og kvennalið Grindavíkur á sama tíma. „Ég hef þó verið í góðu fríi núna og er bara orðinn ferskur aftur, finn það bara og er fullur áhuga og er spenntur fyrir þessu. Áhuginn var alltaf til staðar en ég var bara orðinn þreyttur,“ segir Sverrir og bætir því við að hann hafi þurft að stíga til hliðar og núllstilla sig.
Tindastóll hafði samband við Sverri fyrr á tímabilinu en hann var ekki tilbúinn að flytja norður og taka að sér það verkefni. „Það þurfti að vera eitthvað svona sérstakt sem ég myndi taka að mér.“ Sverrir veit að hann er að stíga inn í sérstaka stöðu en talsverð ólga hefur verið innan liðsins. „Já þetta er sérstök staða, en þetta dæmi sem er búið að vera í gangi er afgrett, milli þá Margrétar og liðsins. Nú horfum við bara fram á veginn og vinnum saman,“ segir þjálfarinn að lokum.