Veisla í Vesturbænum í kvöld
Endurtekið efni milli Njarðvíkur og KR?
Það hitnar í kolunum í karlakörfunni í kvöld þegar Njarðvíkingar heimsækja KR-inga í DHL-höllina í fyrstu rimmu liðanna í undanúrslitum Domino's deildarinnar.
Njarðvíkingar eru nýkomnir úr fimm leikja slag við Stjörnuna á meðan KR sópuðu Grindvíkingum út úr átta liða úrslitum. í leikjum KR og Njarðvík í vetur höfðu Íslands- og deildarmeistararnir úr Reykjavík betur í bæði skiptin. Í upphafi tímabils völtuðu KR-ingar yfir Njarðvíkinga 105:76. Seinni leikurinn í Njarðvík var ögn meira spennandi, en þar höfðu KR engu að síður sigur, 89:100.
Margir tala um rimmu liðanna í undanúrslitum í fyrra, sem eina af bestu seríum sem sést hefur í körfuboltanum hérlendis. Þar spilaði Stefan Bonneau stóra rullu hjá Njarðvíkingum og sýndi tilþrif sem sjaldan sjást í íslenskum körfubolta. Ef viðureign liðanna í ár verður eitthvað í líkingu við þá skemmtun sem boðið var upp á í fyrra þá eiga körfuboltaaðdáendur sannarlega von á veislu.
Hvernig fer í kvöld? Spáðu fyrir um úrslitin hér að neðan.