Veiðimaður vikunnar: 20 pundarinn kom í fyrra
Veiðimaðurinn:
Birgir Már Bragason, umsjónarmaður fasteigna hjá Keili í Keflavík byrjaði að veiða ungur að árum þegar hann fór fyrst í veiði með föður sínum, Braga Pálssyni og bræðrum, þeim Tryggva Þór og Ólafi Braga. „Pabbi fór alltaf í Geirlandið og Baugstaðarós með okkur bræðurna. Síðan þá hafa veiðifélögunum og ánum fjölgað.“
Uppáhaldsveiðiá:
Verð að segja Iðan, Miðfjarðará og Fljótaá.
Fyrsti fiskur á stöng kom:
Maríulaxinn fékk ég í Iðu fyrir all löngu síðan. Veiddist á íslenskt buff. Man að baráttan stóð í ca 30 mín. og ég skalf allur þegar mér loksins tókst að koma honum á land eftir mikla baráttu.
Eftirminnilegasta stundin í veiðinni:
Þær eru svo margar. Verð þó að nefna tvær. Þegar ég og Hjálmar Árnason fórum í
Skógá fyrir tveimur árum. Vorum staddir við veiðistað sem heitir Ingólfur, það var smá vindur og skýjað. Við vorum ekkert búnir að fiska að ráði og okkur leist frekar illa á þennan veiðistað. Um leið og Hjálmar segir: „Þetta er glatað. Það er enginn fiskur í þessum pitt. Eigum við ekki að færa okkur" datt hann í dúnalogn og sólin fór að skína. Viti menn, pitturinn var fullur af fiski og við náðum að landa nokkrum. Svo verð ég að nefna þegar ég fékk fyrsta 20 pundarann á flugustöng í Fljótaá í ágúst í fyrra með vini mínum Rúnari Ingibergs. Það var frábært.
Uppáhalds flugan:
1/2" rauður Francis með keiluhaus og rauð Francis með gullkrók (ala Hjálmar)
Stærsti fiskurinn sem ég hef veitt, hvar og hvenær:
20 pundarinn í Fljótaá 24. ágúst 2010.
Veiðin í sumar 2011:
Blanda, Stóra Laxá, Kjósin og að sjálfsögðu í Fljótaá og Iða. Svo veit maður aldrei hvað dettur meira inn?
Mynd: Birgir með 20 pundararnn úr Fljótaá í fyrra og svo má sjá eftirlætis flugur Birgis á neðri myndinni.