VefTV: Maggi kominn í grænt
Magnús Þór Gunnarsson, fyrirliði Íslandsmeistara Keflavíkur í körfuknattleik hefur gengið til liðs við Njarðvíkinga. Magnús samdi við UMFN til eins árs í gær, en samningur hans við Keflavík rann út eftir nýafstaðna leiktíð.
Koma þessi tíðindi nokkuð á óvart þar sem Magnús hefur leikið allan sinn feril með Keflvíkingum og unnið með þeim fjölmarga titla, síðast sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.
Þetta mun eflaust reynast mikil vítamínssprauta fyrir Njarðvíkurliðið, sem gekk ekki sem skildi á síðasta tímabili. Þeir hafa misst lykilleikmenn og sögðu Teiti Örlygssyni upp þjálfarastöðunni, en Valur Ingimundarson er kominn í brúna á nýjan leik.
Keflvíkingar geta þó sótt einhverja huggun í það að Sverrir Þór Sverrisson snýr aftur í Keflavík og Gunnar Einarsson, besti maður nýliðinnar úrslitakeppni, hefur gefið þeim loforð um að leika með þeim á næsta ári nema hann ákveði að hætta körfuknattleiksiðkun.
„Mér fannst bara kominn tími á breytingar," sagði Magnús í samtali við Víkurfréttir. „Mig hefur líka alltaf langað til að leika með Friðriki Stefánssyni og þar sem hann er ekki að verða yngri með árunum varð maður að slá til." Það er ekki neitt leyndarmál að Magnús hefur verið eftirsóttur af öðrum liðum hér á landi, enda annáluð stórskytta og þrautreyndur landsliðsmaður.
Hvað varð þess valdandi að hann færir sig yfir nú en ekki áður?
Hvað varð þess valdandi að hann færir sig yfir nú en ekki áður?
„Ég var tæpur á að fara eftir tímabilið í fyrra, en við vorum svo slakir þá að ég varð að taka eitt gott ár í viðbót. Nú tekur bara við að hjálpa til við að rífa Njarðvík upp á næsta tímabili."
VF-myndir/Þorgils - Magnús og Jón Júlíus Árnason, formaður kkd. UMFN, handsala samninginn. - Við sama tilefni gekk Sævar Sævarsson til liðs við Njarðvík og Hjörtur Einarsson framlengdi samning sinn við liðið.
Ath að hægt er að sjá viðtal við Magnús í VefTV Víkurfrétta