Varnarliðsmenn slógu fyrstu höggin
Kirkjubólsvöllur vinsæll yfir veturinn.
Varnarliðsmenn hófu golfiðkun í Sandgerði fyrstir manna fyrir um það bil hálfri öld og eru því nokkurs konar frumherjar íþróttarinnar þar. „Þeir útbjuggu einhverjar þrjár holur á túnunum og léku sér á velli sem þeir nefndu Shangri La,“ segir Lárus Óskarsson, formaður og framkvæmdastjóri Golfklúbbs Sandgerðis. Kirkjubólsvöllur er einn vinsælasti golfvöllurinn hjá íslensku kylfingum yfir veturinn en hann er opinn allan ársins hring inn á sumarflatir.
Lárus er gamall sjóari en hefur lagt sjóstakknum og unnið fyrir Golfklúbb Sandgerðis síðan 2019. „Golfklúbbur Sandgerðis var stofnaður árið 1986 en eitthvað var verið að spila golf fyrir þann tíma. Sagan segir að varnarliðsmenn hafi verið að leika sér og kölluðu þá völlinn „Sandgrila“. Völlurinn var fyrst byggður sem sex holu völlur, stækkaði fljótt upp í níu en var svo stækkaður í fullar átján holur árið 2007. Að halda golfvelli við er eilíf vinna, það hafa orðið einhverjar breytingar með árunum, teigum skipt út o.s.frv. Við höfum alltaf boðið upp á sumarflatir allan ársins hring, við erum það nálægt sjónum og þar er fjörusandurinn, hann drenar svo vel og er lykillinn af því að völlurinn er spilhæfur allt árið.
Að sjálfsögðu er ekki spilað þegar snjóar og t.d. var síðasti vetur ansi erfiður en eins og við vitum þá hafa síðustu vetur ekki verið snjóþungir og því hefur oft verið ansi mikil umferð hjá okkur á meðan aðrir klúbbar og golfvellir liggja í dvala.“
Fjölgar í klúbbnum
Lalli segir að það séu ekki bara Sandgerðingar í klúbbnum. „Það hefur verið að fjölga hjá okkur og þetta eru langt í frá bara Sandgerðingar sem eru meðlimir, við erum með mjög marga úr Reykjavík. Flestir eru með með fulla aðild að okkar klúbbi en sumir með fjaraðild, þ.e. viðkomandi er í öðrum klúbbi. Þetta hentar auðvitað þeim sem vilja spila golf yfir veturinn þegar aðrir vellir loka. Umferðin á vellinum er venjulega mikil um helgar á sumrin, virku dagarnir þola mun meira álag. Eðlilega er fólk að vinna þá en það er alltaf að aukast að fólk sem komið er á ellilaun, renni til okkar og spili völlinn.“
Lárus segir að það verði fjölda móta á Kirkjubólsvelli í sumar og starfið sé fjölbreytt.
„Við verðum með sjö stigamót í sumar, það fyrsta var þriðjudaginn 9. maí en fimm bestu telja til stigameistara. Við verðum með hin og þessi mót í sumar, m.a. sveitakeppni 50 ára og eldri og fáum sömuleiðis að halda Íslandsmót í höggleik, 50 ára og eldri. Meistaramótið okkar er venjulega í byrjun júlí, ég vona nú að við fáum fleiri keppendur í ár, hingað til hafa þetta bara verið um 40 til 50 keppendur, við getum auðveldlega tekið við fleirum. Ég heyri utan af mér hversu mikil stemmning er hjá mörgum klúbbum í kringum meistaramótin, þetta er nánast eins og jólin hjá sumum golfurum,“ segir Lárus.
Golfarinn Lárus
Lárus hefur gaman af golfi en segist ekki vera góður. „Iss, gleymdu því að ég fari að segja þér frá mínum golfhæfileikum! Ég hef rosalega gaman af golfi en get ekki neitt, þannig er það bara, er með 30,7 í forgjöf. Ég reyni að spila eins mikið og ég get, það fer mikill tími í að reka klúbbinn en ég mæti í flest eða öll stigamótin t.d. Golfið er fyrir alla, maður getur keppt við alla vegna forgjafarinnar og þess vegna finnst mér þetta svo skemmtileg íþrótt. Ég reyni að fara til Kanarí á hverju ári, spila þar en úr því sem komið er þá er ég nú held ég ekki að fara skrá mig á Evróputúr eldri kylfinga,“ sagði Lárus að lokum.
Viðtalið birtist fyrst á www.kylfingur.is en þar er hægt að finna fjölbreytta umfjöllun um golf.