Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

  • Varð svolítið hissa þegar ég heyrði nafnið mitt kallað
    Laufey Ingadóttir með Íslandsmeistaratitilinn s.l. laugardag
  • Varð svolítið hissa þegar ég heyrði nafnið mitt kallað
    Laufey í fanginu á liðsfélögum sínum í 1. þrepi eftir að úrslit voru kunngjörð á laugardaginn.
Föstudagur 3. apríl 2015 kl. 13:00

Varð svolítið hissa þegar ég heyrði nafnið mitt kallað

-viðtal við Íslandsmeistarann Laufeyju Ingadóttur

Laufey Ingadóttir varð um helgina Íslandsmeistari í 1. þrepi kvenna í áhaldafimleikum. Laufey, sem er á tólfta aldursári, hefur átt frábært keppnistímabil fyrir fimleikadeild Keflavíkur og ofan á titil helgarinnar vann hún bæði innanfélagsmót fimleikadeildarinnar og varð svo bikarmeistari ásamt liðsfélögum sínum í þrepinu í febrúar. Á Íslandsmótinu atti hún kappi við sér mun eldri stúlkur og sigraði þar með einkunina 56,034 sem var rúmlega heilu stigi á undan næsta keppanda. Blaðamaður gerði sér ferð í æfingahúsnæði fimleikadeildarinnar og hitti fyrir þessa ungu, lífsglöðu stúlku sem slær ekki slöku við þótt að hún sé nýbúinn að sigra Íslandsmót og er strax farinn að æfa fyrir næsta keppnistímabil.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvænær byrjaðir þú að æfa fimleika?

Ég held að ég hafi verið 5 ára gömul. 

 

Hvað varð til þess að þú byrjaðir að æfa fimleika en ekki eitthvað annað?

Ég æfði sund einu sinni af því að pabbi minn er að þjálfa sund. Æfði það í ca. 1 og hálft ár. Byrjaði svo að æfa fimleika af því að systir mín var að æfa. Þá æfði ég bæði sund og fimleika í 1 og hálft ár.

 

Hvað æfirðu oft í viku og hvernig er æfingum háttað hjá þér?

Ég æfi 6 sinnum í viku í þrjá tíma í senn. Við byrjum á trampólíninu áður en æfing byrjar og þaðan förum við í upphitun eða þrek. Svo vindum við okkur beint í æfingar á áhöldum þar sem við eyðum mestum tíma æfingarinnar. Núna erum við t.d. byrjaðar að æfa nýja hluti fyrir næstu keppnir.

 

Hvert er uppáhalds áhaldið þitt? 

Jafnvægissláin finnst mér skemmtilegust. Ég er ekki hrædd við að gera nýja hluti á henni og það er mikill plús í fimleikum. 

 

Áttu þér einhverjar fyrirmyndir í íþróttinni? Íslenskar eða erlendar? 

Já, Margrét Lea og Kristjana Ýr sem æfa með Björk finnst mér alveg frábærar. Þær eru mjög öflugir fimleikamenn og ég lít mikið upp til þeirra jafnvel þótt að Margrét sé bara einu ári eldri en ég. Svo er það Shawn Johnson, sem er reyndar hætt núna. Hún lenti í 2. sæti á ÓL í Peking 2008. Mér finnst hún alltaf flottust.

 

Hvernig leið þér þegar nafn þitt var kallað upp og þú vissir að þú værir orðinn Íslandsmeistari? 

Ég varð svolítið hissa af því að ég var að keppa á móti svo mörgum eldri stelpum en ég varð mjög glöð þegar ég áttaði mig á þessu. 

 

Áttirðu von á því að þér myndi ganga svona vel?

Ég átti kannski ekki von á því að standa uppi sem Íslandsmeistari í þrepinu, en mér fannst ég eiga góða möguleika á því að standa mig vel í yngri flokknum.

 

Er tími fyrir eitthvað annað en fimleika þegar maður er Íslandsmeistari?

Já, ég eyði töluverðum tíma með vinum mínum áður en ég fer á æfingar. Við förum svolítið mikið í sunlaugina og svo sinni ég heimavinnunni áður en ég fer á æfingar. 

 

Áttu þér einhver markmið sem að þér langar að ná í fimleikum?

Ég á mér landsliðsdrauma. Það að komast í landsliðið væri frábært og markmiðin mín snúa að því að komast á EM eða NM á þeim vettvangi. 

 

Hvað er svo á dagskránni í sumar? Eru þrotlausar æfingar allt árið um kring?

Nei, það er ekki alveg þannig. Þjálfararnir minir fara alltaf til Rússlands í sumarfrí í júní og þá tökum við okkur frí frá fimleikum. Þá eyði ég meiri tíma með vinum mínum og fjölskyldu og nýt sumarsins.