Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Var fljótur að sýna starfinu áhuga
Fimmtudagur 1. desember 2011 kl. 10:12

Var fljótur að sýna starfinu áhuga

Sverrir Þór Sverrisson er nýráðinn þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta. Honum til aðstoðar verður svo Keflvíkingurinn Anna María Sveinsdóttir, en hún ætti að vera körfuboltaáhugamönnum kunn enda sigursæl með eindæmum, bæði sem leikmaður og þjálfari Keflvíkinga. Í sumar var Sverrir aðstoðarmaður Benedikts Guðmundssonar hjá undir 20 ára landsliði karla sem tók þátt í Evrópumóti síðastliðið sumar í Sarajevó en hann er einnig núverandi þjálfari kvennaliðs Njarðvíkinga. Sverrir segir það vissulega vera heiður að taka við þessu starfi.

„Það er alltaf sama með þjálfara eins og leikmenn. Leikmenn vilja komast í landsliðið og þjálfari sem þjálfar félagslið vill fá að prófa sig með landslið líka. Þó svo að ég hafi ekki verið að hugsa mikið um þetta þá hef ég alltaf haft þetta bak við eyrað, þannig að ég var fljótur að sýna þessu mikinn áhuga þegar hugmyndin var viðruð við mig,“ sagði Sverrir í samtali við Víkurfréttir á dögunum.
„Þetta er skemmtilegt og spennandi verkefni til að takast á við. Það er fyrst og fremst gott fyrir kvennaboltann að A-landsliðið sé aftur komið í gang. Þetta er búið að vera erfitt undanfarið en nú eru hlutirnir að fara aftur af stað, og vonandi er þetta bara byrjunin á einhverju meiru,“ segir Sverrir.

Hvernig kom þetta til? „KKÍ höfðu samband við mig fyrir einhverjum tveimur vikum síðan. Ég var þá boðaður á fund og þeir kynntu sínar hugmyndir fyrir mér, sem mér leist strax vel á.“ Sverrir segir mikinn uppgang hafa verið í kvennaboltanum að undanförnu. Hann telur að deildin sé sterkari en oft áður og mikið af ungum leikmönnum sem eru að stíga fram á sjónarsviðið. „Hér er mikið af ungum stelpum sem eru að æfa mikið aukalega. Þetta er orðið þannig að leikmenn eru byrjaðir að leggja meira á sig og æfa meira en var gert hérna áður fyrr. Vonandi er það bara eitthvað sem á eftir að efla kvennaboltann á komandi árum.“

Hefurðu í huga að byggja liðið upp á ungum leikmönnum? „Ég á alveg örugglega eftir að taka einhverjar af þessum yngri leikmönnum inn í upphaflega hópinn. Svo er það nú ekkert flókið, ef þær eru nógu góðar til þess að komast í 12 manna hóp þá hika ég ekki við að velja þær.“ Sverrir segir að margar ungar stelpur hafi verið að leika vel í Iceland Express-deildinni í vetur. „Það eru margar sem hafa verið að leika vel og koma vel til greina í hópinn sem ég og Anna María erum að fara að velja á næstu dögum,“ en Keflavíkur goðsögnin Anna María Sveinsdóttir mun verða Sverri innan handar sem aðstoðarþjálfari.

Sverrir hefur eins og áður segir verið aðstoðarþjálfari 20 ára liðs Íslands og hann segir vissulega vera mun á því að þjálfa félagslið og landslið þar sem hann mun hafa úr ansi stórum hópi leikmanna að velja. Verkefnið sem er framundan hjá Sverri og Önnu Maríu er Norðurlandamót kvennalandsliða sem fram fer í maí næstkomandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024