Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Vantaði neista í Keflvíkinga
Dröfn Einarsdóttir sýndi oft fína takta í kvöld. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 5. maí 2021 kl. 22:48

Vantaði neista í Keflvíkinga

Keflvíkingar töpuðu fyrsta leik í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu á heimavelli í kvöld þegar liðið mætti Selfossi. Það virtist eitthvað óöryggi í heimakonum og þær náðu sér ekki á strik í leiknum. Það voru gestirnir sem náðu að skora þrjú mörk gegn engu marki heimakvenna.

Það á eftir að mæða á fyrirliða Keflvíkinga í sumar en þótt Natasha Anasi sýndi góðan baráttuanda náði hún ekki að kveikja í liðinu í dag. Dröfn Einarsdóttir var þó spræk og átti góða og hættulega spretti, haldi hún áfram að leika af sama ákafa og hún gerði í kvöld munu Dröfn og Keflavíkurliðið örugglega uppskera nokkuð af mörkum í sumar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikurinn fór rólega af stað og fyrsti stundarfjórðungurinn var frekar tíðindalítill og fór að mestu fram á miðju vallarins. Dröfn átti ágætis spretti upp hægri kantinn en náði ekki nógu vel að koma boltanum fyrir, hún kom sér líka í ágætis færi til að skora en allt kom fyrir ekki.

Keflvíkingar voru sjálfum sér verstar og í lok fyrri hálfleiks var sofandaháttur í vörninni hjá þeim þegar Selfyssingar komust upp að endamörkum og náðu fyrirgjöf á sóknarmann sinn sem fékk allann tímann í heiminum til að klára færið. Blaut tuska í andlit Keflvíkinga að fá þetta ódýra mark á sig því aðeins örfáum sekúndum síðar var flautað til leikhlés.

Keflavík þurfti að sækja í seinni hálfleik en sóknartilburðir þeirra voru ekki sannfærandi, helst bar á Dröfn eins og fyrr í leiknum. Keflvíkingar reyndu að sækja og Selfyssingar ógnuðu með skyndisóknum. Á 65. mínútu fengu Selfyssingar hornspyrnu og í kjölfar hennar var barátta í teignum sem endaði á vafasömum vítaspyrnudómi. Selfoss tók vítið og komst í tveimur mörkum yfir.

Eftir markið gerði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflvíkinga, breytingu á liðinu og skipti varnarmanni út fyrir sóknarmann. Keflavík hélt áfram að sækja en þegar um tíu mínútur voru til leiksloka náði Selfoss að tryggja sér sigurinn með þriðja og síðasta markinu.

Engin óskabyrjun hjá Keflavík en fyrsti leikur í efstu deild afstaðinn og stressið ætti að vera farið úr liðinu fyrir næstu umferð þegar Keflavík mætir Stjörnunni í Garðabæ.

Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Nettóvellinum í kvöld og smellti af meðfylgjandi myndum.