Vandar Lyn ekki kveðjurnar
Rúnar V. Arnarson, formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur, vandar norska úrvalsdeildarliðinu Lyn ekki kveðjurnar í Morgunblaðinu í dag. Baldur Sigurðsson, leikmaður Keflavíkur, var til reynslu hjá Lyn fyrr í þessum mánuði en áður hafa tveir leikmenn frá Keflavík, Stefán Gísalson og Jóhann B. Guðmundsson, farið til Lyn frá félaginu.
Rúnar segir í Morgunblaðinu í dag að hann hlakki ekki til frekari viðræðna við norska liðið og segir ennfremur Keflavík hafa slæma reynslu af samskiptum sínum við Lyn. „Þeir reyndust erfiðir, leiðinlegir og ófagmannlegir í öllum þeim samskiptum,“ sagði Rúnar og átti þá við samningaþófið í kringum Stefán og Jóhann.
Torgeir Bjarmann, framkvæmdastjóri Lyn, sagði við Nettavisen í gær að félagið vildi fá Baldur aftur til sín um áramótin en það vildi Rúnar ekki kannst við og segir forsvarsmenn Lyn enn ekki hafa haft samband við Keflavík vegna Baldurs.
Síðastliðinn föstudag gerði Baldur nýjan þriggja ára samning við Keflavík.
Heimild: Morgunblaðið í dag
VF-mynd/ [email protected] - Baldur við undirritun nýja samningsins s.l. föstudag. Á myndinni með honum er Rúnar V. Arnarson, formaður KSD Keflavíkur.