Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Valur valtaði yfir Keflavík
Föstudagur 1. júní 2012 kl. 10:30

Valur valtaði yfir Keflavík


Fyrri hálfleikurinn í leik Valsmanna og Keflvíkinga fer seint í sögubækur fyrir blússandi sóknarleik og taumlausa skemmtun.  Liðin voru varkár í öllum sínum aðgerðum, Keflvíkingar öllu líklegri til afreka, en Valsmenn létu nokkrum sinnum að sér kveða þegar þeir náðu að keyra hratt á vörn gestanna.  Marktækifærin voru af skornum skammti, liðin fengu bæði hálffæri í fyrri hálfleik, en vantaði kraft og þor.?

Vonir og væntingar áhorfenda til meiri skemmtunar voru uppfylltar strax á upphafsmínútum síðari hálfleiks.  Kolbeinn Kárason kom Valsmönnum yfir eftir tveggja mínútna leik, skoraði þá með ágætu skoti fyrir utan teig sem Ómar Jóhannsson í marki Keflavíkur missti undir sig.  Tæpum tveimur mínútum síðar stormuðu Valsmenn í sókn á nýjan leik, Brynjar Kristmundsson skeiðaði þá inn á teig og lagði boltann fyrir Matthías Guðmundsson, sem var dauðfrír og skoraði af öryggi.

Mörkin tvö virtust slá Keflvíkinga út af laginu og þriðja mark Valsmanna leit dagsins ljós á 60.mín.  Kolbeinn Kárason skoraði þá magnað mark, tróð sér inn á teiginn hjá Keflvíkingum og tók skot þegar Ómar markvörður virtist reikna með fyrirgjöf.  Boltinn fór í Ómar og þaðan í netið, 3-0 fyrir Valsmenn.  Fátt markvert gerðist á síðustu mínútum leiksins fyrr en í blálokin, Keflvíkingar virtust einbeita sér að því fyrst og síðasta að forðast stærra tap, en Valsmenn negldu síðasta naglann í kistuna þegar varamaðurinn Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði tveimur mínútum fyrir leikslok.  Valsmenn fögnuðu því sannfærandi og sanngjörnum sigri á Keflvíkingum, 4-0.


Texti: sport.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Myndir: Jón Örvar Arason