Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Valur þjálfar í Noregi næsta vetur
Mánudagur 15. ágúst 2011 kl. 09:35

Valur þjálfar í Noregi næsta vetur

Valur Ingimundarson er kominn til Noregs og hefur tekið við karla- og kvennaliðum Ammerud í Osló, höfuðborg Noregs. Valur staðfesti þessi tíðindi í samtali við Karfan.is í gærkvöldi en Ammerud er gamla liðið hans Tómasar Holton og þá er enginn annar en Torgeir Bryn í stjórn félagsins en hann er fyrsti og eini Norðmaðurinn til þessa sem leikið hefur í NBA deildinni.
,,Það er ágætt að hafa eitthvað að gera en ég kom hingað til Noregs til að vinna og mér líst bara ágætlega á þetta,“ sagði Valur en Ammerud hafnaði í næstneðsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar á næstu leiktíð. ,,Við misstum svo í sumar tvo af bestu leikmönnum liðsins í atvinnumennsku og þá spilum við líka kanalausir á næstu leiktíð sem ég er hlynntur og líst vel á,“ sagði Valur sem hefur litlar áhyggjur af því hvort hann hafi besta eða versta hópinn.

,,Ég ætla að reyna að kenna þeim eitthvað af því sem ég kann, ég hef gaman af því að kenna körfubolta og þetta verður ekki ósvipað vetrinum hjá FSu á síðasta tímabili sem var með eindæmum skemmtilegur. Gaman að geta notað gutta og láta þá spjara sig, sjá framfarirnar. Við hjá FSu vorum í 2. sæti fyrir áramót á síðustu leiktíð og mönnum leist ekki á að vera að fara upp svo kaninn var sendur heim um áramótin og þetta var mjög skemmtilegt, þetta er það sem ég hef gaman af,“ sagði Valur sem kann vel við sig í Noregi þar sem fótboltinn eins og svo víðar ræður ríkum.

,,Karfan er ekki hátt skrifuð í Noregi en hér í Ammerud er mikil hefð fyrir körfubolta. Eini Norðmaðurinn sem leikið hefur í NBA, Torgeir Bryn, er í stjórn félagsins. Ég hef mætt Torgeir á vellinum síðan árið 1979 og hann er góðkunningi íslenskra körfuboltamanna sem fæddir eru fyrir 1970. Torgeir spilaði í NBA og í stærstu deildum heims og flott að hafa svoleiðis reynslubolta í stjórn félagsins.“

Valur vílar ekki tungumálaörðugleika fyrir sér, hann er sterkur á svellinu í dönsku og mun vísast bjarga sér á henni frameftir vetri í höfðuborg þeirra Norðmanna. Hann kvaddi Ísland sáttur með síðasta vetur hjá FSu. ,,Þetta var frábær vetur og ég er hér að fara inn í svipað verkefni en ég vona að íslensku liðin hemji sig í útlendingamálum, þeir eru farnir að leika allt of stór hlutverk heima, alltof stór!“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024