Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Valur Orri: Vitum hvað er í húfi
Föstudagur 22. janúar 2016 kl. 10:55

Valur Orri: Vitum hvað er í húfi

Rimman um Reykjanesbæ

Valur Orri leikstjórnandi Keflvíkinga býst við hröðum og skemmtilegum leik í kvöld þegar Keflvíkingar fá granna sína í Njarðvík í heimsókn í Domino's deildinni. Hann segir að Keflvíkingar séu ekki sérstaklega að spá í því að Njarðvíkingar séu nú komnir með erlendan leikmann. „Það mun þó gera leikinn skemmtilegri fyrir alla. Við leggjum ekkert áherslu á hin liðin heldur á okkar leik. Það er öruggt að þeir verða okkur erfiðir í leiknum. Þetta verður stál í stál eins og þeir segja.“

Valur segir að helsti kostur Keflvíkinga hingað til hafi verið stöðugleiki. Þeir hafi alltaf náð að spila sinn bolta og samheldnin sé meiri en undanfarin ár. Hann segir áhorfendur mega búast við skemmtilegum leik „Fólk veit að það verður mikið „run & gun“ hjá okkur sem er hefðbundinn Keflavíkurbolti. Nettur hraðlestarbolti mætti jafnvel segja. Það vita allir sitt hlutverk í liðinu og eru sáttir við sitt hlutskipti,“ segir varafyrirliðinn sem leikið hefur frábærlega í vetur. Hann segir menn ekki ræða leikinn neitt sérstaklega en allir viti um hvað málið snýst.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég held að hver og einn viti hvað er í húfi. Það er svo á leikdegi sem maður gírar sig upp fyrir þennan leik,“ segir Valur en hann telur þessar rimmur ekki ósvipaðar og bikarleikir þar sem allt er undir. „Það er öðruvísi orka í manni þá viku sem þessir leikir eru. Maður hugsar um þetta alla vikuna, það er alveg klárt. Ég finn það þegar svona stórir leikir eru framundan þá hefur maður þessa auka orku sem brýst fram.“ Varðandi skot liða á milli í aðdraganda leiksins þá segist Valur hafa mjög gaman af því. Flestir leikmenn úr báðum liðum séu ágætis félagar en vinskapurinn fær þó að fjúka á meðan á leik stendur. „Mér finnst alltaf gaman þegar menn eru með svona skot en ég held að þetta sé nú bara í léttu gríni fyrir leik,“ segir Valur að lokum fullur tilhlökkunar.