Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 16. maí 2011 kl. 00:35

Valur Orri Valsson semur við Keflavík

- 12 leikmenn sömdu við Keflvíkinga í gær


Það var mikið um að vera í Toyota Höllinni í gær, en þá skrifuðu 12 leikmenn undir samning við körfuknattleiksdeild Keflavíkur. Sigurður Þorsteinsson og Þröstur Leó Jóhannsson hafa eins og kunnugt er ákveðið að reyna fyrir sér á nýjum slóðum en Keflvíkingar eru þessa dagana í leit að liðstyrk fyrir komandi tímabil í körfuboltanum. Þeir byrjuðu á því að tryggja sér áframhaldandi þjónustu þeirra leikmanna sem fyrir eru hjá liðinu um leið og þeir nældu sér í einn af feitari bitunum á leikmannamarkaðnum í ár.

Bakvörðurinn Valur Orri Valsson einn allra efnilegasti leikmaður landsins gekk til liðs við Keflvíkinga í gær en hann lék síðast með liði FSU þar sem faðir hans, Valur Ingimundarsson þjálfaði liðið. Nú mun Valur leika undir stjórn Sigurðar frænda síns en hann tók að sér þjálfun Keflvíkinga á dögunum. Valur sem er einungis á 17. aldursári lék frábærlega með FSU á síðasta tímabili og skoraði að meðaltali 22.4 stig, tók 4.9 fráköst og gaf 5.8 stoðsendingar í leik. Hann náði einnig þeim árangri að verða Norðurlandameistari í U16 drengja á síðasta ári, en hann var þar valinn maður úrslitaleiksins með 22 stig.

Þess ber einnig að geta að Arnar Freyr Jónsson og Almar Stefán Guðbrandsson verða í herbúðum Keflvíkinga á næstkomandi tímabili. Arnar er hægt og bítandi að stíga upp úr meiðslum sem hann hlaut í Danmörku á síðasta ári, en hann er allur að koma til og kemur án efa sterkur inn á næstu mánuðum.

Aðrir leikmenn sem skrifuðu undir eru leikmenn sem eru aldir upp hjá félaginu, ungir og efnilegir jafnt sem þaulreyndir leikmenn í efstu deild.

Eftirfarandi leikmenn skrifuðu undir samning við Keflvíkinga í gær:

Magnús Þór Gunnarsson
Jón Norðdal Hafsteinsson
Gunnar Hafsteinn Stefánsson
Halldór Örn Halldórsson
Ragnar Gerald Albertsson
Andri Þór Skúlason
Sigurður Vignir Guðmundsson
Hafliði Már Brynjarsson
Andri Daníelsson
Kristján Tómasson
Sævar Freyr Eyjólfsson
Valur Orri Valsson

Myndir: Keflavik.is

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024