Valur Orri til Grindavíkur
Grindavík hefur samið við leikstjórnandann knáa Val Orra Valsson um að leika með félaginu næstu tvö keppnistímabil í Subway-deild karla. Valur Orri hefur leikið með Keflavík undanfarin ár en byrjaði sinn meistaraflokksferil einungis fjórtán ára gamall og spilaði einnig í háskóla í bandaríkjunum frá árunum 2016 til 2020. Frá þessu er greint á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar UMFG.
„Við höfum haft augastað á Vali Orra lengi. Þegar hann kom til Íslands úr háskólaboltanum fyrir þremur árum. Þá höfðum við samband við hann til að heyra hvað hann hafði hugsað sér að gera. Núna er hann mættur og ætlar að sýna okkur og ykkur hversu frábær leikmaður hann er. Ég er að kynnast drengnum upp á nýtt því ég hef aðeins þekkt hann sem leikmann á vellinum. En ég er viss um að Grindavík sé frábær klúbbur fyrir Val Orra. Hérna eru allir jafningjar og það fá allir tækifæri likt og við sýndum á síðasta tímabili þar sem fimm íslenskir leikmenn snéru við leikjum þegar illa gekk,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur á Facebook-síðu deildarinnar.
Grindvíkingar eru stórhuga fyrir næsta tímabil og hafa nú þegar samið við DeAndre Kane, Daniel Mortensen og Dedrick Basile um að leika með félaginu á næstu leiktíð.