Valsstúlkur of sterkar
Valur gerði út um leik þeirra og Keflavíkur í fyrri hálfleik í gærkvöldi er liðin mættust í Landsbankadeild kvenna að Hlíðarenda. Leiknum lauk með 4-1 sigri Valsstúlkna sem eru nú komnar á topp deildarinnar með jafn mörg stig og Breiðablik en Blikastúlkur eiga tvo leiki til góða. Keflavík er sem fyrr í 5. sæti deildarinnar með 12 stig en þær léku án Bjargar Ástu Þórðardóttur sem sleit krossbönd á dögunum með U 21 árs liði Íslands.
Margrét Lára Viðarsdóttir gerði tvö mörk fyrir Val með skömmu millibili og Dóra Stefánsdóttir gerði þriðja mark Vals áður en flautað var til hálfleiks. Keflavík átti ekkert markvert færi í fyrri hálfleik og virtust ekki líklegar til að gera Valsstúlkum skráveifu. Liðinu gekk illa að halda boltanum og Valsstúlkur komust ótt og títt inn í ómarkvissar sendingar Keflavíkur.
Keflavík gerði nokkrar breytingar í seinni hálfleik og virtust þær skila árangri. Valsstúlkur héldu engu að síður áfram að sækja af miklum krafti en vörn Keflavíkur var mun þéttari en í fyrri hálfleik.
Margrét Lára Viðarsdóttir var þó ekki farin úr skotskónum og innsiglaði hún þrennuna sína með marki úr vítaspyrnu. Vesna Smiljkovic klóraði í bakkann fyrir Keflavík þegar hún skoraði fallegt mark með skalla eftir aukaspyrnu frá Ágústu Jónu Heiðdal.
Leiknum lauk því með 4-1 sigri Vals og eru þær eins og áður segir á toppi deildarinnar.
„Við byrjuðum mjög illa og þar sem Björgu vantaði þá misstum við miðjuna upp í hendur Vals,“ sagði Ásdís Þorgilsdóttir, þjálfari Keflavíkur, í samtali við Víkurfréttir. „Valsliðið er mjög sterkt á okkar veiku hliðar og þær nýttu sér það vel í leiknum. Við vorum komnar á mikla keyrslu fyrir hléið í deildinni en pásan hefur greinilega eitthvað dempað ganginn á okkur. Nú förum við bara til Eyja á þriðjudag og mætum þeim af fullri hörku og vinnum þær,“ sagði Ásdís að lokum.
Næsti leikur Keflavíkur er í Vestmannaeyjum þriðjudaginn 9. ágúst kl. 19:00.
VF-myndir/Jón Björn, [email protected]