Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

„Vallarstjórinn í Vogunum verður að taka þetta á sig“
Fyrirliðinn var ekki sáttur með úrslitin. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 14. júní 2023 kl. 12:15

„Vallarstjórinn í Vogunum verður að taka þetta á sig“

Adam Árni Róbertsson, fyrirliði Þróttar og næstmarkahæsti leikmaður 2. deildar, var ekki sáttur við að hafa einungis náð í eitt stig um síðustu helgi þegar Þróttur tók á móti Dalvík/Reyni. Þróttarar lentu undir í leiknum en þeir komust yfir með mörkum frá Adam og Antoni Frey Hauks Guðlaugssyni. Gestirnir náðu að knýja fram jafntefli með marki í uppbótartíma og fyrir vikið misstu Þróttarar toppsætið og sitja nú í öðru sæti 2. deildar, einu stigi á eftir toppliði KFG.

„Það kom mér á óvart hversu mikil gæði eru í þessari deild eftir að hafa spilað í Bestu deildinni og Lengjudeildinni. Það eru mjög góðir leikmenn inn á milli og taktíkin er líka betri en ég bjóst við.

Leikurinn við Dalvík/Reyni var auðvitað svekkjandi. Við vorum með þetta fram á 92. mínútu, þetta eru klárlega tvö töpuðu stig fyrir okkur. Fyrir þá var þetta eins og sigur, við vitum að það er erfitt að koma á okkar heimavöll – við erum búin að búa til helvítis vígi þarna og það er hrikalega góð stemmning á leikjum Þróttar. Fólk lætur í sér heyra og styður okkur.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Adam skoraði fyrra mark Þróttar en hann fékk svo algjört dauðafæri seint í leiknum en setti boltann yfir markið af stuttu færi. Mark þar hefði komið Þrótti í 3:1 og sennilega gert endanlega út um leikinn.

„Ég ætlaði aldrei að setja hann upp, bara renna honum inn. Vellirnir eru eins og þeir eru, það er bara þannig. Vallarstjórinn í Vogunum verður að taka þetta á sig,“ segir Adam kokhraustur.

Anton Freyr skoraði seinna mark Þróttar.

Hvert er markmið ykkar í sumar?

„Það er klárlega að fara upp, vinna deildina. Það væri gaman að vera markahæstur – það þarf að stoppa þennan ÍR-ing þarna [Braga Karl Bjarkason sem er markahæstur í 2. deild],“ sagði fyrirliðinn brattur að lokum.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir á leiknum sem eru í myndasafni neðst á síðunni.

Þróttur - Dalvík/Reynir (2:2) | 2. deild karla 11. júní 2023