Íþróttir

Valdimar Kristinn Árnason íþróttamaður ársins annað árið í röð
Myndir af vef Sveitarfélagsins Voga.
Sunnudagur 11. janúar 2026 kl. 13:21

Valdimar Kristinn Árnason íþróttamaður ársins annað árið í röð

Viðurkenningarathöfn þar sem íþróttamaður ársins, sjálfboðaliði ársins og hvatningaverðlaun Sveitarfélagsins Voga voru veitt fór fram á þrettándanum í Tjarnasal Stóru-Vogaskóla.

Íþróttamaður ársins 2025 var annað árið í röð Valdimar Kristinn Árnason

Valdimar Kristinn er rallýkrossökumaður. Valdimar varð bæði Íslandsmeistari og bikarmeistari í unglingaflokki árið 2024 og íþróttamaður ársins í Sveitarfélaginu Vogum.

Hann varð 17 ára eftir tímabilið í fyrra og fór því upp um flokk og keppti í 1000cc flokk, en þar var hann í harðri samkeppni við reynslumeiri ökumenn enda yngstur í þessum flokki og flokkurinn sá stærsti fyrir ökumenn 17 ára og eldri.

Eftir sumarið stóð hann aftur uppi sem Íslands- og bikarmeistari í 1000cc flokki.

Þetta gerði hann allt á sama bílnum, en þó búinn að þyngja hann svo hann sé í réttri þyngd, hann hefur smíðað og græjað bílinn sjálfur með aðstoð eldri bróður síns.
Valdimar er þekktur fyrir prúðmennsku, hjálpsemi og hógværð innan Rallýcross-samfélagsins bæði innan sem utan brautar.

Hann tók einnig þátt í rallý þetta sumar sem aðstoðarökumaður og varð í 3ja sæti þar í Íslandsmeistaramótinu í rallý.

Valdimar hefur sýnt það og sannað að með aga, eldmóð, þrautseigju og metnaði er allt mögulegt.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Sjálfboðaliði ársins 2025 kom í hlut Helgu Ragnarsdóttur

Helga hefur um árabil unnið magnað og ómetanlegt starf í þágu samfélagsins og er einstök í að varðveita sögu og menningararf sveitarfélagsins. Hún er ekki aðeins burðarás í starfi Minjafélagsins heldur líka ótrúlega fús til að leggja hönd á plóg í fjölmörgum öðrum verkefnum sem styrkja og efla samfélagið.

Helga var meðal annars einn af lykilaðilum í framkvæmd og undirbúningi Landsmóts UMFÍ 50+ á síðasta ári, þar sem hún sýndi ótrúlega elju, skipulagshæfileika og jákvæðni. Þá hefur hún unnið stórvirki við fjölmörg verkefni Minjafélagsins, svo sem uppbyggingu Samkomuhússins og Kirkjuhvols, skipulagningu jólamarkaða, uppbyggingu á Norðurkoti, skipulagðra gönguferða og móttöku hópa í Skjaldbreið, auk umsjónar með bátnum Huginn – og mætti þar lengi telja. Það er rétt að minna á að Minjafélag- og sögufélag Vatnsleysustrandar er fámennt félag, sem gerir framlag Helgu enn dýrmætara. Fyrir okkur sem erum virk í félagsstörfum í Vogum er ljóst að árangur félagsins og metnaðarfull verkefni á þessu ári endurspegla í hvívetna óeigingjarnt starf, eldmóð og þrautseigju Helgu Ragnarsdóttur. Helga er lifandi sönnun þess hvernig einn einstaklingur getur haft gríðarlega jákvæð áhrif á sitt samfélag.

Hvatningaverðlaun ársins 2025 hlaut Björgvin Dagur Kárason

Björgvin Dagur æfir fótbolta með Þrótti Vogum og er sagður þrautseigur, mikill peppari, samviskusamur, stundvís, umhyggjusamur, hjálpsamur og góður.

Athöfnin var haldin í Tjarnarsal. Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, flutti ávarpsorð og minnti á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og menningarstarfs í Vogunum þar sem sjálfboðaliðar gegndu oft og tíðum lykilhlutverki sem sjaldan færi hátt. Það væri auður hvers sveitarfélags og mikilvæg sjálfsmynd þess að fólk fyndi sér farveg til að iðka áhugamál og hitta mann og annan.

Björg Ásta Þórðardóttir varaformaður Frístunda- og menningarnefndar flutti einnig nokkur orð og afhenti viðurkenningar, blómvendi og farandsbikar. Athöfnin var hátíðleg og þakkar Frístunda- og menningarnefnd öllum tilnefndum, verðlaunahöfum og gestum kærlega fyrir komuna.

Tilnefningar voru eftirfarandi:

Hvatningarverðlaun ársins:
Björgvin Dagur Kárason

Sjálfboðaliði ársins:
Jóhanna Brynja Ólafsdóttir
Helga Ragnarsdóttir
Samúel Þórir Drengsson, Hannes Smárason og Hilmar Ólafsson.

Íþróttamaður ársins:
Jökull Blængsson
Valdimar Kristinn Árnason

Valdimar Kristinn Árnason íþróttamaður ársins 2025

Helga Ragnarsdóttir sjálfboðaliði ársins 2025

Björgvin Dagur Kárason fékk hvatningarverðlaun ársins 2025