Væringar í leikmannamálum knattspyrnuliðanna á Suðurnesjum
Keflvíkingar hafa klófest danska knattspyrnumanninn Jeppe Hansen og hafa gert tveggja ára samning við leikmanninn sem leikið hefur á Íslandi undanfarin tvö ár.
Danski framherjinn, oft kallaður Jeppinn, varð Íslandsmeistari með Stjörnunni 2014 og skoraði þá sex mörk í níu leikjum en alls skoraði hann 18 mörk í 44 leikjum með Garðabæjarliðinu. Hann fór hins vegar til KR síðla sumars 2016 en náði sér ekki á strik í markaskorun í Vesturbænum.
„Ég fann að þeir vildu fá mig og og áætlanir og metnaður þeirra fyrir framtíðina gerði gæfumuninn. Markmiðið er mjög skýrt. Að fara upp með Keflavík og vonandi get ég hjálpað til með því að skora slatta af mörkum," sagði Jeppe í samtali við fotbolta.net.
Keflvíkingar hafa mikinn hug á því að gera betur á næsta tímabili en nýlega réðu þeir nýjan þjálfara, Guðlaug Baldursson sem hafði verið aðstoðarþjálfari Íslandsmeistara FH undanfarin ár. Með komu Danans vonast Keflvíkingar til að snerpa á markaskorun og sóknarleiknum. Nýlega gengu Keflvíkingar frá samningum við Guðjón Árna Antóníusson og Frans Elvarsson.
En það eru fleiri á eftir miðverði Keflvíkinga, Haraldi Guðmundssyni. Víðir í Garði er að leita að nýjum þjálfara og þeir hafa samkvæmt heimildum fotbolta.net boðið Haraldi stöðuna. Áður höfðu þeir boðið keflvíska Garðmanninum Jóhanni Birni Guðmundssyni, Grindvíkingnum Milan S. Jankovic og Bjarna Jóhannssyni þjálfarastöðuna, en allir afþakkað.
Víðismenn áttu frábært sumar og leika í 2. deild á næsta ári. Þá hefur Jörundur Áki Sveinsson verið orðaður við Reyni í Sandgerði.
Þá eru fréttir úr Vogum á þá leið að Þróttarar stefni hátt næsta sumar og séu að leita leiða til að styrkja liðið með nýjum leikmönnum sem og að halda í nokkra sterka leikmenn eins og Alexander Magnússon sem hefur leikið með Grindavík og Keflavík.
#Nýjustu fréttir í leikmannamálum sem komu í ljós rétt eftir að þessi pistill var skrifaður eru þær að Einar Orri Einarsson hefur gert nýjan samning við Kefllavík.