Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Væri gaman að vinna loksins leik
Föstudagur 28. september 2007 kl. 16:36

Væri gaman að vinna loksins leik

Keflvíkingar eiga einhverja öflugustu stuðningsmannasveit allra liða í Landsbankadeildinni. Pumasveitin telur kannski ekki jafn marga meðlimi og stuðningsmannasveitir KR, Vals og FH en meðlimir Pumasveitarinnar kunna svo sannarlega sitt hvað fyrir sér í hvatningarhrópum.

 

Joey Drummer er einn forsprakka sveitarinnar og hann er orðinn töluvert spenntur fyrir leik Keflavíkur og ÍA á morgun. Drummerinn sagði Víkurfréttum að enginn kali væri á milli stuðningssveita Keflavíkur og ÍA heldur þvert á móti, Skagamenn væru meira að segja mættir til Keflavíkur að skemmta sér í óvissuferð.

 

,,Stuðningsmannasveitirnar ætla að hittast í kvöld. Við ætlum að snæða með Skagamönnum og svo er ég að spila á Yello í kvöld þar sem höfð verður smá upphitun hjá sveitunum. Þá verðum við einnig aftur á Yello á morgun um kl. 11.30 fram að leik að hita upp fyrir leikinn og svo göngum við saman upp á völl og endum sumarið með stæl,” sagði Drummerinn.

 

Var fyrri leikur liðanna á Skaganum ekkert hitamál milli sveitanna?

,,Menn hafa auðvitað skiptar skoðanir á þessu máli. Við ræddum þetta fram og til baka og þeir eru á því að þetta hafi verið óviljaverk hjá Bjarna en við einfaldlega skiljum ekki hvað lá að baki þessu marki hjá honum. Leikurinn á Akranesi tilheyrir fortíðinni og ekkert hægt að gera við þessu núna. Við mætum bara ferskir á morgun og leitumst eftir sigri, það væri gaman að vinna loksins leik.”

 

Drummerinn lofar því að Pumasveitin verði í toppformi á morgun og sagði Drummerinn að stuðningsmannasveitir liðanna yrðu í landsleikjaformi. Þeir sem ætla að leggja leið sína á leik Keflavíkur og ÍA morgun ættu að fylgjast vel með í kringum hálfleikinn því þá lofar Drummerinn skemmtilegri uppákomu en þvertók fyrir að gefa það upp hver hún yrði.

 

Keflavík-ÍA

Kl. 14:00 á Keflavíkurvelli

Laugardaginn 29. september

 

VF-Mynd/ Úr safni - Pumasveitin á góðri stund.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024