Vængbrotnir Njarðvíkingar töpuðu en Keflavík heldur í vonina um 2. sætið
Keflvíkingar lögðu ÍR-inga í Domino’s deildinni í körfubolta í TM-höllinni í kvöld með tuttugu stiga mun 100-80 en vængbrotnir Njarðvíkingar töpuðu fyrir Haukum með sex stiga mun 79-85. Þetta var næst síðasta ferðin í deildarkeppninni.
Keflvíkingar voru í góðum gír og unnu þægilegan sigur þar sem Magnús Már Traustason skoraði 19 stig og tók 7 fráköst, Jerome var með 17/8, Ágúst Orrason 13 stig, Guðmundur Jónsson 13/5 fráköst og Valur Orri 12/4 fráköst. Tíu af tólf leikmönnum Keflavíkur komust á blað og allir fengu að spreyta sig. Keflvíkingar eru í harðri baráttu við Stjörnuna um 2. sætið.
Njarðvíkingar sem voru án Hauks Helga og Loga Gunnarssonar auk þjálfarans Friðriks Inga Rúnarsson lentu strax í vandræðum í leiknum gegn Haukum í Ljónagryfjunni og voru 21 stig undir í hálfleik. Þeir girtu sig í brók eftir hálfleiksræðu frá Teiti Örlygssyni og voru nálægt því að hreinsa upp þennan mun en náðu því ekki alveg. Jeremy M. Atkinson var með 23/11 fráköst og Maciej Baginsi 20/5 stoðsendingar. Njarðvíkingar eru í 7. sæti og gætu lent á móti Keflavík í 8 liða úrslitunum. Grindvíkingar sem töpuðu í gær þurfa nauðsynlega að vinna Njarðvík í síðustu umferðinni en þá þarf Snæfell að tapa fyrir Þór í Þorlákshöfn. Stjarnan og Keflavík leika og úrslitin þar ráða því hvort liðið nælir sér í 2. sætið. Njarðvíkingar sigla lygnan sjó í 7. sæti deildarinnar.