Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Útlitið svart hjá Keflvíkingum
Frá leiknum í kvöld
Mánudagur 29. júní 2015 kl. 23:38

Útlitið svart hjá Keflvíkingum

1-2 ósigur gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar

Keflvíkingar urðu að sætta sig við ósigur gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar í 10. umferð Pepsí deildar karla er liðin mættust á Nettóvellinum í kvöld. Sigurinn var sanngjarn, Stjarnan fékk ógrynni færa og hefði sigurinn hæglega getað orðið stærri en raun bar vitni. Lokatölur urðu 1-2 fyrir gestina.

Leikurinn fór fjörlega af stað þar sem að Stjarnan fékk nokkur ákjósanleg færi til að komast yfir en það var ekki fyrr en á 25. mínútu sem að ísinn var brotinn þegar Jeppe Hansen skoraði fyrsta mark leiksins eftir sendingu frá Arnari Má Björgvinssyni. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Jeppe var svo nálægt því að bæta við öðru marki á 35. mínútu en skalli hans hafnaði í markslánni. Það voru þó Keflvíkingar sem að jöfnuðu metin nokkuð gegn gangi leiksins þegar Sigurbergur Elísson skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Staðan í hálfleik var því 1-1.

Síðari hálfleikur var ekki nema 2ja mínútna gamall þegar Stjarnan hafði tekið forystuna á nýjan leik og var þar að verki Arnar Már Björgvinsson eftir sendingu frá Ólafi Karli Finsen.

Fyrirliði Keflvíkinga, Haraldur Freyr Guðmundsson, þurfti svo að yfirgefa völlinn á 50. mínútu eftir að hafa orðið fyrir meiðslum og þurfti Einar Orri Einarsson að færa sig í miðvörðinn í hans stað. Stjörnumenn fengu nokkur dauðafæri síðustu 20 mínúturnar til að gera algjörlega úti um leikinn en náðu ekki að koma boltanum í netið og urðu lokatölur leiksins 1-2, Stjörnunni í vil.

Keflvíkingar eru þar með komnir í virkilega slæm mál, sitja aleinir á botni deildarinnar og eru 4 stigum frá næsta liði. Varnarleikur heimamanna var jafn slakur og hann hefur verið í nær allt sumar og náðu Stjörnumenn að sauma sig næsta auðveldlega í gegn í hvert sinn sem tækifæri gafst. 

Útlitið er orðið svart sem nóttin og næsta víst að eitthvað stórkostlegt þarf að eiga sér stað í herbúðum Keflavíkur til að eitthvað annað en fall í 1. deild verði hlutskipti liðsins í sumar.