Útisigrar hjá Grindavík og Njarðvík
 Íslands- og deildarmeistarar Njarðvíkur felldu Þór úr Þorlákshöfn niður í 1. deild en Þór kom úr þeirri deild fyrir þessa leiktíð. Þórsarar létu Njarðvíkinga hafa vel fyrir sigrinum en lokatölur voru 86-91 Njarðvíkingum í vil. Grindvíkingar unnu góðan 92-96 spennusigur á KR í DHL-Höllinni þar sem Páll Axel Vilbergsson hélt uppteknum hætti og átti enn einn stórleikinn.
Íslands- og deildarmeistarar Njarðvíkur felldu Þór úr Þorlákshöfn niður í 1. deild en Þór kom úr þeirri deild fyrir þessa leiktíð. Þórsarar létu Njarðvíkinga hafa vel fyrir sigrinum en lokatölur voru 86-91 Njarðvíkingum í vil. Grindvíkingar unnu góðan 92-96 spennusigur á KR í DHL-Höllinni þar sem Páll Axel Vilbergsson hélt uppteknum hætti og átti enn einn stórleikinn. 
Friðrik Erlendur Stefánsson var atkvæðamestur í liði Njarðvíkinga með 25 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar. Næstur honum kom Jeb Ivey með 24 stig. Sigurinn var sá fimmtándi í röðinni hjá Njarðvíkingum.
Páll Axel fór á kostum í DHL-Höllinni í gær er hann setti niður 27 stig, tók 12 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Páll gerði mikilvæga þriggja stiga körfu í leikslok sem kom Grindavík í 92-94.
Ljóst er orðið hvaða lið munu mætast í úrslitakeppninni en hún hefst þann 15. mars næstkomandi.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				