Útileikir hjá Njarðvík og Keflavík í kvöld
Fimm leikir fara fram í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld og hefjast þeir allir kl. 19:15. Keflvíkingar mæta Þór Akureyri fyrir Norðan og Njarðvíkingar heimsækja ÍR í Seljaskóla.
Keflavík situr á toppi deildarinnar með 24 stig þegar 13 umferðum er lokið í deildinni. Á meðan er Þór í 9. sæti deildarinnar með 10 stig og á í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Þór og Keflavík mættust í fyrri deildarleik liðanna í Keflavík þann 25. október sl. þar sem Keflavík hafði góðan 99-85 sigur í leiknum. Þá setti Gunnar Einarsson niður 21 stig fyrir Keflavík en Luka Marolt gerði 32 stig fyrir Þór.
Njarðvíkingar heimsækja bikarmeistara ÍR í Seljaskóla en Njarðvík er í 4. sæti deildarinnar með 16 stig en ÍR hefur 10 stig í 7. sæti. Liðin mættust í Ljónagryfjunni þann 26. október þar sem Njarðvíkingar fóru með 83-68 sigur af hólmi. Í þeim leik gerði Hörður Axel Vilhjálmsson 26 stig fyrir Njarðvíkinga en Ómar Örn Sævarsson átti góða dag fyrir ÍR með 16 stig og 18 fráköst.
Aðrir leikir kvöldsins:
Snæfell-KR
Skallagrímur-Tindastóll
Fjölnir-Hamar
VF-Mynd/ [email protected] - Arnar Freyr Jónsson og félagar í Keflavík geta styrkt stöðu sína enn frekar á toppi Iceland Express deildar karla í kvöld.