Úti er ævintýri
Njarðvíkingar steinlágu í Vesturbænum
Njarðvíkingar vilja helst gleyma körfuboltaleiknum sem fram fór í Vesturbænum í kvöld sem fyrst, þar sem KR-ingar völtuðu yfir Suðurnesjapilta 92-64 í oddaleik um sæti í úrslitunum gegn Haukum. KR sýndi af hverju þeir eru meistarar síðustu tveggja ára með hreinlega yfirburðar frammistöðu. Leikur þeirra var þrælskipulaður og gekk mest allt upp hjá heimamönnum á meðan Njarðvíkingar virkuðu hálf bugaðir. Ótrúlegri rimmu lokið með 3-2 sigri og það annað árið í röð.
Njarðvíkingar voru ekki klárir í svona stóran leik og svo virtist sem að þeir væru frekar þreyttir eftir átökin að undanförnu. Þeir hafa átt ótrúlega leiki í úrslitakeppninni en nú virtist sem síðustu droparnir væru að leka af tanknum. Engin endurkoma í boði í kvöld eins og oft áður. Ótrúlega elja og barátta sem hefur einkennt liðið var ekki til staðar í dag og skotin voru ekki að detta. Grænir áttu engin svör við Craion í teignum og alltaf var opin skytta fyrir utan hjá KR sem setti skotið niður.
Sérstaklega ber að hrósa áhorfendum Njarðvíkinga sem hafa átt magnaða úrslitakeppni. Þeir studdu við bakið á sínum mönnum allt til loka og sýndu að þeir hafa verið bestu stuðningsmenn landsins í úrslitakeppninni. Logi Gunnarson hafði orð á því í lok leiks að nokkrir leikir hefðu unnist í úrslitakeppninni vegna þeirra.
KR-Njarðvík 92-64 (22-17, 25-16, 29-12, 16-19)
Njarðvík: Jeremy Martez Atkinson 22/14 fráköst, Haukur Helgi Pálsson 13/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 10, Logi Gunnarsson 8, Oddur Rúnar Kristjánsson 5/4 fráköst/5 stoðsendingar, Snjólfur Marel Stefánsson 2, Maciej Stanislav Baginski 2, Adam Eiður Ásgeirsson 2, Gunnlaugur Sveinn Hafsteinsson 0, Jón Arnór Sverrisson 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Hjörtur Hrafn Einarsson 0.
KR: Michael Craion 20/4 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 16/7 fráköst, Darri Hilmarsson 13/8 fráköst, Helgi Már Magnússon 12/7 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 8, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 7, Björn Kristjánsson 6/6 fráköst, Pavel Ermolinskij 6/5 fráköst/8 stoðsendingar, Vilhjálmur Kári Jensson 3, Jón Hrafn Baldvinsson 1, Ólafur Þorri Sigurjónsson 0, Arnór Hermannsson 0.
Myndir/ Bára Dröfn Kristinsdóttir.