Úthlutun Íþróttasjóðs 2007
Þrjár deildir á Suðurnesjum fá í ár úthlutað fjármagni úr Íþróttasjóði Íslands. Í ár voru alls 19,2 milljónir króna veittar úr sjóðnum og voru það 600.000 kr. sem úthlutað var til félaganna þriggja á Suðurnesjum.
Úthlutað var til verkefna til að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar, styrkir til íþróttarannsókna og styrkir til útbreiðslu og fræðsluverkefna.
Fimleikadeild Keflavíkur fékk 300.000 kr. vegna kaupa og endurnýjunar ýmissa tækja. Golfklúbbur Suðurnesja fékk 200.000 kr. vegna kaupa á ýmsum tækjum og þá fékk Ungmennafélagið Þróttur 100.000 kr. vegna kaupa á ýmsum búnaði fyrir hnefaleika og badminton.
Umsóknarfrestur um styrki úr Íþróttasjóði rann út þann 2. október 2006 en alls bárust sjóðnum 155 umsóknir. Íþróttanefnd mat umsóknirnar og gerði tillögu til menntamálaráðherra um úthlutun úr sjóðnum.