Usher átti sviðið í Keflavíkursigri
Keflavík sigraði Skallagrím með 78 stigum gegn 75 í 12. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta á heimavelli sínum í gær. Keflavík er eftir sigurinn í 3. sæti deildarinnar með 14 stig.
Keflvíkingar frumsýndu nýjan erlendan leikmann í leiknum, en sá heitir Davon Usher. Hann olli engum vonbrigðum og var maður leiksins, skoraði 25 stig, tók 9 fráköst og stal 5 boltum. Hann var þó lengi í gang sem er kannski skiljanlegt í fyrsta leik. Magnús Þór Gunnarsson var mættur aftur á gamla heimavöllinn með Skallagrími en hann lék vel í leiknum og skilaði 14 stigum.
Gestirnir frá Borgarnesi leiddu 33-40 í hálfleik. Keflvíkingar mættu hins vegar grimmir til leiks í þriðja leikhluta og skoruðu þá 30 stig gegn 17 frá gestunum. Það má segja að það hafii nægt þeim til sigurs, þrátt fyrir góða mótspyrnu frá gestunum undir lok leiks.
Á Karfan.is má finna nánari umfjöllun og viðtöl úr leiknum.