Úrvalshópar og aðstöðuleysi
– Fimleikadeild Keflavíkur er meðal fjölmennustu deildanna í Reykjanesbæ
Hæfileikaríkt fimleikafólk úr Reykjanesbæ hefur verið valið í úrvalshópa í áhalda- og hópfimleikum af landsliðsþjálfurum Fimleikasambands Íslands. Öll hafa þau æft fimleika með fimleikadeild Keflavíkur en eru núna í öðrum félögum á höfuðborgarsvæðinu.
Anna Sigríður Jóhannesdóttir, formaður fimleikadeildar Keflavíkur, segir nokkrar ástæður liggja að baki því að lengra komið fimleikafólk leiti í félög á höfuðborgarsvæðinu.
„Þegar krakkarnir hafa náð góðum árangri í greininni og vilja ná lengra þá skapast sú aðstaða að við höfum hvorki nógu marga iðkendur á þessu getustigi né aðstöðu til að mæta þörfum þeirra. Æfingaaðstaðan okkar er ekki gerð fyrir fimleika, við getum ekki einu sinni haldið mót, og húsnæðið er ákveðinn þröskuldur í okkar starfi,“ segir Anna Sigríður.
Fimleikaakademían ekki hentugt húsnæði
Fimleikadeildin tók alfarið við rekstri fimleikaakademíunnar í tilraunaskyni í ár en reksturinn hefur verið í höndum Reykjanesbæjar hingað til. Með þessu fyrirkomulagi getur deildin haft opnunartímann lengri og t.a.m. verið með æfingar um helgar en það er mikilvægur kostur þegar skipuleggja þarf æfingatíma hátt í 500 iðkenda.
„Þetta fyrirkomulag er að koma mjög vel út finnst okkur. Núna sjáum við um að manna störfin í húsinu og það gengur vel. Það kemur betri nýting á húsnæðið þegar við getum verið með æfingar um helgar og svo höfum við boðið fólki að halda afmælisveislur í salnum á laugardögum, það hefur verið brjáluð aðsókn í það.
Anna Sigríður segir að fimleikar njóti gífurlegra vinsælda í Reykjanesbæ, deildin sé mjög fjölmenn og það skapist oft biðlistar til að komast í fimleika. „Húsnæði akademíunnar er löngu sprungið. Nemendur úr Myllubakkaskóla hafa verið í hér síðustu þrjú ár og það er búið að láta okkur vita að þeir fari ekki út í sumar eins og til stóð, það gerist í fyrsta lagi um áramót. Það eru okkur mikil vonbrigði því við þurfum þessa sali. Þarna getum við verið með yngri iðkendur og losað um tíma í stóra salnum. Þá eru bílastæðamál hérna í ólagi og skapast oft vandræðaástand þegar mikið er um að vera í húsinu.“
Anna Sigríður bendir einnig á að húsnæðið hafi í raun aldrei hentað fyrir fimleikaiðkun því salurinn sé ekki af löglegri stærð og því ekki hægt að halda mót í honum.
Árið 2008, í kjölfar bankahrunsins, komst bæjarstjórn Reykjanesbæjar að samkomulagi við fimleikadeild Keflavíkur um að seinka byggingu fimleikahúss sem þá var í bígerð og það mál er ennþá í bið. Nú ætti eitthvað að fara gerast í þeim málum því samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið í ár segir að hönnunarvinna á nýju fimleikahúsi fari í gang á þessu ári auk þess að fjármagn var sett í endurnýjun tækja og búnaðar fimleikadeildarinnar.
„Við erum afar þakklát fyrir það sem bærinn hefur gert fyrir okkur með því að endurnýja tækjabúnað okkar, hann var orðinn mjög lúinn og í sumum tilfellum við það að vera háskalegur iðkendum, en við bíðum spennt eftir að vera boðuð á fyrsta hönnunarfund nýs fimleikahúss,“ segir Anna Sigríður. „Við höfum beðið lengi. Það mál var sett á ís vegna fjármálahrunsins á sínum tíma, svo aftur vegna Covid, en það er ekki hægt að fresta þessu endalaust. Við erum að vinna gott starf í heilsueflingu íbúa Reykjanesbæjar en það gæti verið miklu betra. Við gætum tekið fleiri iðkendur inn og við höfum einnig fundið fyrir áhuga hjá eldri borgurum að bjóða upp á æfingar fyrir þeirra aldurshóp. Fimleikadeildin vildi sannarlega geta orðið við því en getur það hreinlega ekki eins og staðan er í dag.“
Margsinnis hefur sú umræða komið upp að byggja fjölnota íþróttahús í Reykjanesbæ þar sem mögulegt væri að setja þær deildir sem þurfa á inniaðstöðu að halda en er nú á víð og dreif um bæinn. Anna Sigríður segir að fimleikadeildin hafi fengið loforð um að vera fyrsta deildin sem fær inni í því húsnæði.