Þriðjudagur 11. september 2007 kl. 09:58
Úrtökumótið hafið hjá Erni Ævari
Kylfingurinn Örn Ævar Hjartarson, GS, er nú staddur í Oxfordshire skammt utan við London á Englandi þar sem hann reynir fyrir sér á úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Með honum í för er félagi hans Ottó Sigurðsson úr GKG en Davíð Viðarsson, GS, fór út með Erni og verður kylfusveinn hjá honum á meðan keppni stendur.
Úrtökumótin eru langt og strangt ferli þar sem fjórir hringir eru leiknir á fyrsta stigi. Alls eru stig úrtökumótanna þrjú talsins og á fyrsta stigi eru fjórir keppnisdagar þar sem niðurskurður er að loknum þriðja hring.
Örn hóf keppni í morgun á Oxfordshire vellinum og ætti því að vera búinn með um níu holur. Ekki er hægt að nálgast beinar uppfærslur frá mótinu en nánar verður greint frá árangri Arnar á golfvefmiðli Víkurfrétta, www.kylfingur.is
VF-Mynd/ Örn Ævar á Íslandsmótinu fyrr í sumar á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði þar sem hann hafnað í 2. sæti á eftir Björgvini Sigurbergssyni úr GK.