Úrslitakeppnin komin í gang: Keflvíkingar vinna Tindastól
Keflvíkingar byrja úrslitakeppnina með fljúgandi starti og unnu Tindastól örugglega á heimavelli sínum í kvöld, 98-81.
Keflvíkingar byrjuðu betur og náðu strax forystu þökk sé góðri vörn og feiknabaráttu undir körfunum þar sem Fannar Ólafsson fór fremstur í flokki. Fjarvera hins meidda Nick Boyd háði Stólunum verulega og liggja þeir eflaust á bæn og vona að hann verði leikfær fyrir næsta leik.
Annar leikhluti var algjör einstefna þar sem Keflvíkingar fóru hreinlega á kostum og völtuðu yfir gestina frá Sauðárkróki sem virtust vita ráðalausir gegn fastri pressuvörninni.
Í sókninni léku Magnús Þór, Jón Norðdal og Gunnar Einarsson á als oddi og virtist allt rata í körfu Stólanna. Keflvíkingar náðu mest 30 stiga forskoti en staðan var 57-31 í hálfleik og útlit fyrir að gestirnir færu niðurlægðir heim.
Í upphafi seinni hálfleiks snerist taflið gjörsamlega við þar sem Tindastólsliðið tók öll völd á vellinum. Þeir skoruðu fyrstu 10 stigin og söxuðu jafnt og þétt á hið mikla forskot Keflvíkinganna. Clifton Cook, sem hafði eytt fyrri hálfleiknum í rassvasa Nick Bradford, vaknaði loks til lífsins og fór hamförum í sókninni þar sem hann hitti vel að utan og var duglegur að keyra gegnum vörnina. Munurinn fór niður í 9 stig þegar verst lét fyrir heimamenn og fór að örla á spennu í leiknum sem hefði talist óhugsandi nokkrum mínútum áður.
Keflvíkingarnir komu þó inn í síðasta leikhlutann með þægilega forystu, 82-66, og héldu sjó í frekar átakalitlum lokakafla og tryggðu sér sigur og gott veganesti fyrir annan leik liðanna sem fer fram á Sauðárkróki á laugardaginn.
Síðustu leikir Keflvíkinga hafa verið svipaðir þar sem þeir ná góðu forskoti sem þeir tapa síðan niður með slæmum leikköflum. Falur Harðarson, annar þjálfara Keflavíkur sagði eftir leikinn að menn gætu ekki leyft sér slíkt í úrslitakeppni. „Við komum bara alltof værukærir út í seinni hálfleikinn og slíkt bara má ekki gerast. Mikilvægast var þó að vinna leikinn og svo ætlum við að klára þetta í næsta leik.“
K: Gunnar Einarsson 20, Derrick Allen 18, Fannar Ólafsson 17, Nick Bradford 15, Magnús Þór Gunnarsson 15, Jón Norðdal 10.
T: Clifton Cook 22, David Sanders 17, Helgi Viggósson 11, Svavar Birgisson 11.
Í hinum leik kvöldsins unnu deildarmeistarar Snæfells öruggan sigur á Hamri.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi á leiknum í kvöld.