Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Úrslitakeppnin hefst í kvöld!
    Óli Óla og félagar þurfa að klífa KR fjallið til að komast áfram
  • Úrslitakeppnin hefst í kvöld!
    Logi Gunnarsson segir Njarðvíkinga þurfa að mæta Stjörnunni af fullum krafti.
Fimmtudagur 19. mars 2015 kl. 09:24

Úrslitakeppnin hefst í kvöld!

Njarðvík og Grindavík ríða á vaðið

Hátið körfuknattleiksmanna gengur formlega í garð í kvöld þegar fyrstu leikirnir í úrslitakeppni Domino´s deildar karla verða spilaðir. 

Grindvíkingar enduðu sem 8. besta lið deildarinnar og fá það erfiða verkefni að freista þess að leggja KR þrisvar sinnum til að komast áfram í næstu umferð. Leikir liðanna í deildinni voru svart og hvítt þar sem KR jarðaði Grindvíkinga með 40 stigum í fyrri leiknum í DHL höllinni en í seinni leiknum í Röstinni var um háspennu að ræða í tveggja stiga sigri KR-inga, þar sem að Michael Craion skoraði sigurkörfuna 1 sekúndu fyrir leikslok eftir klaufagang í vörn Grindavíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur hafði þetta að segja um einvígi liðanna þegar VF náði tali af honum í gær:

Við þurfum að halda KR-ingum niðri og leyfa þeim ekki að keyra á okkur. Á sama tíma þurfum við að spila okkar leik, þ.e. spila saman og gera allt sem lið. Þá gerast góðir hlutir. 

Við þurfum að hugsa vel um okkur, bæði líkama og sál þar sem að þetta er langt mót og spilað stíft. Að öðru leyti skiptir mestu máli að mæta tilbúnir í leiki og á æfingar með 100% fókus á verkefnið.

Aðspurður um heilsu leikmanna sagði Ólafur alla vera heila en sjálfur væri hann að jafna sig á lungnabólgu sem ætti ekki að aftra honum frá því að spila.

Í Njarðvík taka heimamenn á móti bikarmeisturum Stjörnunnar í rimmu sem að margir telja geta farið í 5 leiki. Liðin skiptu með sér sitthvorum leiknum í deildarkeppninni og má búast við jöfnum og skemmtilegum leikjum.

Logi Gunnarsson, fyrirliði Njarðvíkur,hafði þetta að segja um Stjörnuna:

Við pössum vel á móti Stjörnunni að mínu mati. Þeir eru með gæði í flest öllum stöðum og við verðum að hafa sérstakar gætur á bakvörðum þeirra og útlending undir körfunni. Þeir eru harðir í horn að taka þegar í stóru leikina er komið og hafa reynslu í þeim. Við mætum þeim engu að síður með mikilli hörku og treystum á vörnina okkar.

Við erum að fínpússa vörn og sókn. Svo er alltaf bætt einhverju við í þeim efnum sem enginn hefur séð, þá aðallega taktískt. 

Njarðvíkingar mæta með fullfrískt lið og glíma ekki við nein meiðsli. Elvar Már Friðriksson mun ekki leika með liðinu í úrslitakeppninni en það var staðfest í gær.

Báðir leikir hefjast á slaginu 19:15 í kvöld og eru stuðningsmenn hvattir til að mæta á völlinn að styðja við bakið á sínum mönnum.