Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Úrslit dagsins: Víðir skellti Reyni í Sandgerði
Frá leik Víðis og Reynis fyrr í sumar
Laugardagur 5. september 2015 kl. 19:59

Úrslit dagsins: Víðir skellti Reyni í Sandgerði

Grindavík lá fyrir Þór - Njarðvík og Þróttur Vogum með jafntefli

Leikjum dagsins í neðri deildum er lokið þar sem að bar hæst að Víðismenn settu möguleika Reynismanna á því að vinna sér inn sæti i 2. deild í uppnám. 

Grindvíkingar töpuðu heima fyrir Þór Akureyri 1-2 í æsispennandi leik. Markalaust var í hálfleik en Þórsarar komust yfir með marki á 55. mínútu. Grindvíkingum tókst að jafna metin á 89. mínútu með marki frá Alejandro Jesus Hernandez en Þórsarar tryggðu sér sigurinn með marki í uppbótartíma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingar sitja í 7. sæti með 30 stig þegar tveimur leikjum er ólokið í 1. deildinni.

Njarðvíkingar tóku á móti KV í 2. deild karla þar sem að liðin sættust á 3-3 jafntefli. Staðan í hálfleik var 1-1, KV skoraði á 25. mínútu en Theódór Guðni Halldórsson jafnaði fyrir Njarðvík á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Stefán Birgir Jóhannesson kom Njarðvík svo yfir á 65. mínútu en KV-menn skoruðu tvívegis í kjölfarið en Aron Freyr Róbertsson jafnaði fyrir Njarðvík á lokamínútu leiksins.

Sigur hefði verið kærkominn fyrir Njarðvík í dag en Njarðvík er stigi frá falli þegar tvær umferðir eru eftir og ljóst að Njarðvík þarf að öllum líkindum að ná í a.m.k. einn sigur til að tryggja sæti sitt í deildinni.

Víðismenn gerðu sér lítið fyrir og skelltu grönnum sínum í Reyni, 1-3, í Sandgerði og settu Sandgerðinga þar með í gríðarlega erfið mál fyrir síðustu umferð mótsins.

Milan Tasic kom Víðismönnum yfir fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks, en kappinn hefur verið gríðarlega iðinn við markaskorun frá því að hann gekk til liðs við Garðmenn. Tómas Jónsson skoraði svo annað mark Víðis á 78. mínútu áður en Tasic skoraði annað mark sitt og þriðja mark Víðismanna á 85. mínútu. Sandgerðingar náðu að klóra í bakkann í uppbótartíma með marki Hafsteins Rúnars Helgasonar.

Sem áður segir eru Sandgerðingar komnir í erfið mál fyrir lokaumferð mótsins en geta prísað sig sæla að Völsungur tapaði sínum leik í dag líka, svo vonin um að komast upp í 2. deild er ennþá til staðar fyrir Sandgerðinga en þeir eru nú einu stigi á eftir Húsvíkingum fyrir lokaumferðina sem fer fram næstu helgi. Þar verða Reynismenn að sigra KFS á útivelli og vonast eftir því að Völsungur misstígi sig gegn Berserkjum og nái ekki í meira en jafntefli. Jafntefli gæti dugað Reyni ef Völsungur tapar með 3 mörkum.

Að lokum gerðu Þróttarar 2-2 jafntefli við ÍH í fyrri leik liðanna í umspili 4. deildar karla en leikið var í Kaplakrika. Páll Guðmundsson kom Þrótti yfir á 14. mínútu en ÍH jafnaði strax á 22. mínútu. 

ÍH komst svo yfir 15 mínútum fyrir leikslok en Hafþór Ægir Vilhjálmsson tryggði Þrótturum jafntefli með marki á 83. mínútu leiksins.

Liðin mætast aftur á miðvikudagskvöldið í Vogunum og mun sigurvegarinn í þeim leik tryggja sér sæti í 3. deild að ári.