Úrslit dagsins: Njarðvík og Víðir með ósigra
Njarðvíkingar þurftu að lúta í lægra haldi fyrir Huginn á heimavelli sínum í dag en lokatölur á Njarðtaksvellinum urðu 0-1 fyrir gestina.
Miguel Garcia gerði eina mark leiksins á 58. mínútu og fleytir sigurinn gestunum 6 stigum fyrir ofan Njarðvíkinga í deildinni en Njarðvíkingar hafa þar með tapað fjórum leikjum í röð í deild og bikar eftit glæsilega byrjun á mótinu.
Njarðvíkingar sækja KV heim í vesturbæ Reykjavíkur næstkomandi föstudag í 8. umferð.
Víðir í Garði beið einnig ósigur á heimavelli í dag þegar liðið mætti KFS í 3. deild karla. Lokatölur urðu 1-3 en gestirnir komust í 0-3 áður en Tómas Jónsson minnkaði muninn stuttu fyrir leikslok.
Víðismenn eru enn við botn deildarinnar með 2 stig og hafa ekki unnið leik það sem af er móti. Víðir mætir næst toppliði Magna á Nesfiskvellinum í Garði á föstudaginn kemur.