Úrslit dagsins í Lengjubikarnum
Víðir í Garði og kvennalið Keflavíkur spiluðu í dag sína fyrstu leiki í Lengjubikarnum. Víðir tapaði fyrir Tindastóli 5-4 í hörkuleik á Akranesi en Keflavíkurkonur unnu góðan 2-1 sigur á liði Sindra í Reykjaneshöllinni.
Leikur Víðis og Tindastóls fór fram í Akraneshöllinni og úr varð markasúpa í tíðindamiklum leik.
Árni Gunnar Þorsteinsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Víðir á 6. mínútu en Tindastóll jafnaði tveimur mínútum síðar og komst svo yfir á 15. mínútu. Víðismenn voru ekki af baki dottnir og tókst að jafna og komast yfir, 3-2, fyrir hálfleik með tveimur mörkum frá Sigurbirni Bjarnasyni á 29. og 39. mínútu.
Síðari hálfleikur var ekki nema tveggja mínútna gamall þegar Tindastóll hafði jafnað leikinn í 3-3 úr vítaspyrnu og gengu svo skrefinu lengra og komust yfir með marki hálftíma fyrir leikslok. Guilherme Emanuel Ramos náði svo að jafna leikinn í 4-4 á 82. mínútu og stefndi allt í það að liðin myndu skipta með sér stigunum. Sú varð ekki raunin því Tindastólsmenn potuðu inn sigurmarki á 92. mínútu leiksins og keyrðu norður með öll stigin í skottinu.
Víðismenn mæta Berserkjum á Víkingsvelli í næsta leik þann 27. mars.
Í Reykjaneshöllinni tóku Keflavíkurkonur á móti Sindra frá Hornafirði í fyrsta mótsleik nýs þjálfara Keflavíkur, Gunnlaugs Kárasonar. Það byrjaði ekki byrlega fyrir heimastúlkur því Sindri náði forystu á 32. mínútu. Keflvíkingar jöfnuðu þó metin á síðustu mínútu fyrri hálfleiks með marki frá Evu Lind Daníelsdóttur. Það var svo Garðmærin Sveinborg Ólafía Sveinsdóttir sem skoraði sigurmarkið fyrir Keflavík hálftíma fyrir leikslok eftir að hafa komið inná sem varamaður.
Keflvík mætir næst sameiginlegu liði HK og Víkings í Kórnum 28. mars.