Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Upphitun fyrir undanúrslitin
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 3. maí 2024 kl. 06:02

Upphitun fyrir undanúrslitin

Keppnismaðurinn Páll Ketilsson, eigandi og ritstjóri Víkurfrétta, kom, sá og sigraði á laugardaginn en þá gerði hann vonir Petru Lindar Einarsdóttur, um að koma sér í topp fjögur í tippleik Víkurfrétta, að engu. Spennan var mikil, þau voru jöfn með sex leiki rétta þegar þrír leikir voru eftir en Palli var með pálmann í höndunum því hann var með tvo af leikjunum með tveimur merkjum og vann að lokum sigur, 9-8.

Sem fyrr fæddist enginn nýr milljónamæringur á Íslandi en 27 tipparar víðsvegar um Skandinavíu fengu 3,3 milljónir fyrir þrettán rétta. Einungis sex af tæplega 800 tippurum sem náðu tólf réttum voru landar okkar og fékk hver rúmar 42 þúsund krónur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áskorandi vikunnar tengist tippleiknum nánum böndum því hann útvegar miðana á úrslitaleikinn og skaffar líka hótel í London. Kappinn heitir Sigurður Óli Þórleifsson, oft kallaður Siggi dómari eða Siggi Mustad en hann er með umboð fyrir Mustad beitu og beitningarvélar.

„Takk fyrir að bjóða mér að taka þátt, ég hlakka til að mæta Páli Ketilssyni. Það er ekki alveg komið á hreint hvort ég komi með ykkur á úrslitaleikinn 25. maí en ég stefni á það enda annálaður stuðningsmaður Manchester United. Ég hef verið í þessum miðabransa í talsverðan tíma og eftir að umsvifin jukust var ekkert annað í stöðunni en stofna fyrirtæki utan um batterýið, Njóttu ferðir. Ég hef haft gaman af því að tippa í gegnum tíðina og verður gaman að glíma við seðil helgarinnar, ég ætla mér að sigra Palla,“ sagði Siggi.

Páll Ketilsson var ennþá í sigurvímu eftir sigurinn gegn Petru Lind.

„Sem sá keppnismaður sem ég er, var ég að sjálfsögðu mjög ánægður með sigurinn gegn Petru Lind. Maður mætir ekki í keppni öðruvísi en ætla sér sigur, annað væri galið og ég mun mæta með sömu hörku á móti Sigga, þó svo að hann sé að skaffa miðana og hótelið í leiknum,“ sagði eigandi Víkurfrétta.